Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu minnir á alþjóðlegan dag reykskynjarans í dag í færslu á Facebook.

„Það er nauðsynlegt að reykskynjarar séu til staðar á öllum heimilum og þeir þurfa að vera í öllum rýmum, ekki síst þar sem raftæki eru.“

Þá segir að það sé góð regla að yfirfara reykskynjarana einu sinni á ári og skipta þeim út á tíu ára fresti.

„Desember hefur verið sá mánuður sem gott er að skipta um batterí.“

Síðasti sólahringur gekk vel fyrir sig að sögn slökkviliðsins og flutningar undir meðallagi.

Dælubílar fóru sex útköll og eitt þeirra vegna potts á eldavél.

„Þótt eldur sé oft minniháttar í slíkum tilfellum þá er lyktin af brenndum potti ein versta brunalykt sem við finnum og vill hún sitja eftir í húsnæði og fötum lengi,“ segir í Facebook færslunni.