Upplýsingaskjáir nýrra bíla verða sífellt fullkomnari með hverju ári. Þaðan er nú hægt að stjórna flestu er viðkemur stjórntækjum bílsins, allt frá hljómtækjum, loftkælingu, sætisstillingum og fylgst með ástandi bílsins. Þar má líka setja inn leiðsögukerfi og stilla ljós eða öryggisbúnað svo eitthvað sé nefnt. Þetta hefur auðveldað bílaframleiðendum að bæta við búnað bíla sinna án þess að verðið rjúki upp, en sumum gengur betur en öðrum að gera þá skilvirka og einfalda.

Samkvæmt nýrri rannsókn frá IAM RoadSmart, sem er stærsta einkarekna rannsóknarstofa Bretlands í umferðaröryggismálum, er þó ekki allt sem sýnist varðandi notkun slíkra kerfa. Meðal þess sem að niðurstöðurnar sýndu fram á var að stöðvunarvegalengd gat aukist um 4-5 bíllengdir þegar ökumaður var að nota upplýsingaskjáinn. Einnig sýndi rannsóknin að sumir ökumenn tóka augun af veginum í allt að 16 sekúndur við að nota skjáinn, en á 110 km hraða er það hálfur kílómeter. Það eru verri niðurstöður en sést hafa í sambærilegum rannsóknum á fólki sem sendir textaskilaboð undir stýri. Samkvæmt rannsóknarstjóra IAM, Neil Greig er athyglisleysi ökumanns þáttur í um þriðjungi bílslysa. „Fyrri rannsóknir benda til þess að notkun Apple CarPlay og Android Auto sé skárri kostur en hefðbundinna stjórntækja við akstur. Þessi rannsókn sýnir að hafa þarf áhyggjur af notkun nýjustu upplýsingakerfanna sem taka mikla athygli frá ökumönnum.“ Kallar hann eftir því að yfirvöld og bíliðnaðurinn rannsaki þetta betur og þrói staðla sem einfaldi notkun þeirra.

Í rannsókninni þurftu ökumenn að keyra bíl eftir þremur leiðum þrisvar sinnum. Fyrst án nokkurrar truflunar, síðan aðeins með því að nota raddskipun og loks með því að nota snertiskjáinn á meðan á akstri stóð. Ekki þarf að koma á óvart að ökumönnunum gekk verst að halda athyglinni á meðan snertiskjárinn var notaður. Gekk ökumönnunum illa að halda réttri vegalengd í næsta ökutæki, brugðust seinna við hættum og fóru frekar út fyrir akrein sína. Það sem þótti koma verst út var viðbragstíminn sem var meiri en hjá notanda kannabis, og allt að fimm sinnum meiri en hjá einhverjum sem var við mörk áfengisinnihalds í blóði ökumanna. Niðurstöðurnar sýndu fram á að ökumenn eru líklegri til að nota snertiskjáinn frekar en raddstýringu við almennan akstur.