Starfsfólk Rauða krossins hefur lýst yfir áhyggjum af vinnustaðamenningu og stjórnunarháttum innan félagsins eftir miklar breytingar innan félagsins í ljósi tekjufalls í faraldrinum.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segist skilja vel áhyggjur fólks. Það sé stöðugt verkefni að reyna að halda sjó í faraldrinum. Hún segir ekki von á sérstakri stefnubreytingu og að vegferð Rauða krossins ætti ekki að vera áhyggjuefni fyrir samfélagið.

„Ef stjórnskipulagið væri betra, hefðu uppsagnirnar þurft að eiga sér stað?“

„Eru fleiri að missa vonina?“

Starfsmannafundir fara fram reglulega með fjarfundabúnaði þar sem starfsfólk fær tækifæri á að koma áhyggjum sínum á framfæri, meðal annars í formi nafnlausra spurninga og athugasemda. Starfsmannafundir voru haldnir vikulega frá því í mars og út vorið og hófust á ný í haust og eru haldnir reglulega eða á um það bil mánaða fresti.

Meðal spurninga og athugsemda sem komu upp á starfsmannafundi þann 7. desember síðastliðinn voru:

  • „Áhyggjur af vegferð félagsins og leið stjórnenda til að stjórna í krísu, eða ekki stjórna. Lítið hefur breyst hjá stjórnendum síðan í vor, hvað verður gert?“
  • „Er þörf á utanaðkomandi fagþjónustu til að taka út vinnustaðamenningu og stjórnunarhætti hjá Rauða krossinum til að fá hlutlaust mat og von um úrbætur?“
  • „Eru fleiri að missa vonina um að eitthvað breytist til hins betra hjá okkur?“
  • „Ef stjórnskipulagið væri betra, hefðu uppsagnirnar þurft að eiga sér stað? Verkefna- og þarfamiðað, en ekki meðvirkt og fólk upptekið af egó, sínum og annarra.“
Frú Ragnheiður er sjálfboðaverkefni sem býður fólki sem notar vímuefni í æð upp á skaðaminnkandi þjónustu, svo sem nýjar nálar.
Fréttablaðið/Eyþór

Kristín segir það sífelluverkefni að halda góðum starfsanda og vinnustaðamenningu, enda mikilvægt að huga að góðum starfsanda á öllum tímum. Gríðarlegt álag hefur verið á starfsfólki í þrettán mánuði vegna snjóflóða, óveðurs, aurskriða og kórónaveirufaraldursins. Sjálfboðaliðar og starfsfólk dreifir mat, sér um farsóttarhúsið og hjálparsímann 1717 þar sem árlegur fjöldi símtala hefur rokið upp úr 14 þúsund upp í 24 þúsund. Ofboðslegt álag er á fataverkefni Rauða krossins þar sem margir eru heima í samkomubanni að taka til í fataskápnum. Skortur er á sjálfboðaliðum og með tekjufalli var fólki sagt upp og verkefnum breytt en þrátt fyrir þetta hefur aldrei dottið út vakt hjá Frú Ragnheiði, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á fjöldahjálparstöðinni fyrir íbúa Seyðisfjarðar eftir aurskriðurnar í desember.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Auðvitað hefur þetta áhrif á starfsandann. Við erum búin að gera heilmikið en það er alltaf hægt að gera betur. Ég vil að fólk segi mér ef það er ósátt. Það er vont að byrgja inni óánægju og maður vill nú ekki eyða lunganu úr deginum óánægður í starfi. Ég hvet alla til að ræða við mig eða trúnaðarmenn,“ segir Kristín í samtali við Fréttablaðið.

Hún lýsir hinum ýmsu fjölbreyttu verkefnum Rauða krossins fyrir blaðamanni og segist fyllast stolti þegar hún hugsar um þá ótöldu tíma sem sjálfboðaliðar þeirra hafa gefið til að aðstoða fólk í sínu nærumhverfi.

Ofboðslegt álag er á fataverkefni Rauða krossins þar sem margir eru heima í samkomubanni að taka til í fataskápnum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sérstakir tímar kalla á aðra nálgun

Rauði krossinn hefur þurft að endurskoða verkefni í ljósi tekjufalls en skjólstæðingar félagsins eru ávallt í forgangi að sögn Kristínar.

„Við förum inn í verkefni, vekjum athygli á málefnum og drögum okkur svo í hlé eins og var gert með Konukot, því miður eru næg verkefni sem kraftar Rauða krossins nýtast í. Ef við sjáum að verkefni eru komin á góðan stað, þá taka aðrir við, hvort sem það eru fyrirtæki eða sveitarfélög.“

Aðspurð um stjórunarhætti innan Rauða krossins segir Kristín breytingar vegna sóttvarnatakmarkanna auðvitað hafa áhrif á líðan fólks.

„Þegar allir eru heima geta stjórnendur ekki hitt starfsmenn sína í sama herbergi. Þetta eru sérstakir tímar og auðvitað hefur þetta áhrif á líðan fólks. Stjórnendur þurfa að vera með yfirsýn þegar þeir vinna heima hjá sér og það hefur kallað á aðra nálgun. Á stórum vinnustað eru aldrei allir sáttir en mælingar sýna að starfsfólk og sjálfboðaliðar eru stolt af því að tilheyra Rauða krossinum enda er þetta gefandi starf.“

Stærri verkefni kalli á stærri einingar

Á fyrrnefndum starfsmannafundi var borinn upp spurning um sameiningu deilda á höfuðborgarsvæðinu.

„Af hverju er það ekki rætt opinskátt að sameina allar deildir á höfuðborgarsvæðinu til þess að nýta mannauð og peninga betur? Af hverju þetta pískr?“ var spurt á fundinum í desember.

Kristín útskýrir að sameining deilda sé í höndum stjórnar hverrar deildar fyrir sig og er það ákveðið á aðalfundum, sem er ávallt haldnir á vorin. Á höfuðborgarsvæðinu eru núna starfræktar þrjár deildir, höfuðborgarsvæðisdeild, Kópavogsdeild og Hafnafjarðar- og Garðabæjardeild. Síðasta vor var ákveðið að sameina deildir Rauða krossins í Reykjavík og Mosfellsbæ í höfuðborgarsvæðisdeild.

Aðspurð hvort fleiri stjórnir hafi rætt um að sameinast segir Kristín:

„Það á eftir að koma í ljós. Ég held að þetta sé bara þróun eins og við höfum séð með sameiningu sveitarfélaga, saman erum við sterkari. Það eru ekki allar deildir með starfsmenn og það mætti segja að verkefnum hafi fækkað en stækkað, þær lúta að almannavörnum, náttúruhamförum og stórum slysum. Svæði taka á móti kvótaflóttamönnum það er umfangsmikið verkefni og fólk lítur svo á að stærri verkefni kalli á stærri einingar. Betra að búa til eina einingu utan um stærra svæði og starfið verður öflugra þegar það eru fleiri starfsmenn bak við.“