Bjarni Benediktsson, Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tjáði sig um mál blaðamannanna sem hafa verið boðaðir í yfirheyrslu hjá lögreglu. Í færslu sem birtist á Facebook-síðu hans í kvöld spyr hann hvort að „fjölmiðlamenn séu of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar?“

Líkt og fjallað hefur verið um í dag og í gær hafa þau Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson, Aðalsteinn Kjartansson og Þóra Arnórsdóttir verið boðuð í yfirheyrslu hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, vegna umfjöllunar þeirra um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja. Einhverjir þessara blaðamanna og formaður blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, hafa gagnrýnt vinnubrögð lögreglu.

„Það verður að segjast eins og er að svo virðist sem þessi hefðbundu vinnubrögð og lögmál eigi ekki við, að minnsta kosti ekki að öllu leyti, í tilviki blaðamannanna sem fengu símtal í gær.“ segir fjármálaráðherra sem gefur til kynna í færslu sinni að það séu einungis getgátur sem ráði för í umfjöllun fjölmiðla um málið.

„Engar fréttir hafa verið fluttar af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar. Þeir sem stjórnað hafa þeirri umræðu eru þeir hinir sömu og nú eru til rannsóknar. Það eina sem þeir hafa fram að færa hins vegar eru getgátur um það hvað lögreglan muni mögulega vilja spyrja þá um og álit þeirra á eigin getgátum um það. Þeir segja okkur að þeim sé gefið að sök að hafa nýtt gögn til að skrifa fréttir. En hvað vita þeir svo sem um það á þessu stigi máls?“

Þá gagnrýnir Bjarni RÚV sérstaklega fyrir frétt varðandi málið, en þar var lögfræðingur fenginn til að gefa álit sitt á málinu. Bjarni vill meina að einungis hafi verið notast við foresndur þessara blaðamanna, og spyr „Eru einhver fordæmi fyrir svona vinnubrögðum fréttastofu?“

Bjarni birtir þá nokkrar spurningar sem hann segir að séu sér ofarlega í huga þegar hann les um málið.

„Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar? Hvernig getur það talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu?

Ef fjölmiðlamennirnir eiga þann lögvarða rétt sem þeir gefa sér að eigi við í þessu máli, að svara ekki spurningum lögreglunnar, vilja þeir þá ekki bara gera það, neita að svara. Er það mjög íþyngjandi? Meira íþyngjandi en almennir borgarar þurfa að þola í málum sem eru til rannsóknar lögreglu?“

Bjarni endar færslu sína á orðunum „Við gerum öll kröfu til þess að hér á landi séu allir jafnir fyrir lögunum. Má gera þá kröfu að allir séu jafnir fyrir fjölmiðlunum líka?“ og virðist þar með þeirrar skoðunnar að umfjöllun fjölmiðla í umræddu máli hafi ekki verið réttlát.