Zsófia Sidlovits, ræstitæknir á Hótel Borg og Apótek hóteli, og Alise Lavrova, fyrrverandi ræstitæknir á Hótel 1919 segja í samtali við Fréttablaðið að þær séu ánægðar með verkfall dagsins og segja að ræstitæknar séu hvergi nærri hættar. Þær séu tilbúnar í frekari aðgerðir. Verkföllin snúist ekki bara um laun, heldur einnig aðbúnað og virðingu.

Þær gengu báðar út í verkfalli hótelþerna í dag og ræddu við Fréttablaðið á samstöðufundi Eflingar í Gamla Bíói í dag. 

Hvernig líður ykkur með daginn í dag?

„Við erum mjög spenntar og ánægðar, en á sama tíma mjög rólegar og tilbúnar í næstu átök og aðgerðir,“ segir Zsófia og Alise tekur undir það.

Hverju vonist þið til að breyta? Snýst þetta eingöngu um laun?

„Nei, þetta snýst um svo miklu meira. Ég vona að þetta breyti heildarviðhorfi fyrirtækjanna og hvernig þau koma fram við láglaunastarfsfólk og eru undir verulega miklu álagi,“ segir Zsófia.

„Nákvæmlega, þetta snýst ekki bara um peningana. Peningar geta skipt máli, en þetta snýst líka um menntun, aðgengi að heilbrigðiskerfinu og margt annað. Aðalatriðið er svo að þegar þú verð helmingi ævi þinnar í vinnunni þá viltu að fólk beri virðingu fyrir þér og taki eftir þér. Þú vilt að á vinnustaðnum sé heilbrigt andrúmsloft og við vonum innilega að þessi hlutir breytist líka,“ segir Alise.

Aðgerðirnar hljóta  að hafa slæm áhrif á hótelin í dag?

„Líklega, og eiginlega vonandi. Því það þýðir að það verður tekið eftir okkur og þá litlu hluti sem við gerum á hverjum degi. Sem eru í raun ekki svo litlir, en það er svo auðvelt að taka ekki eftir því,“ segir Alise.

Þetta vinnur allt sem ein heild?

„Já, og þegar einn hluti heildarinnar dettur út þá hættir kerfið að virka. Þetta er fyrsti dagur aðgerða og við erum að kynnast og deila sögum og það er ótrúlegt,“ segir Alise.

„Ég er sammála því að þetta muni koma illa við hótelin. Ég veit að þau reyndu að undirbúa sig eins mikið og þau gátu. En enginn kemur í okkar stað, þannig að þetta eru skilaboð til þeirra að opna augun og takast á við vandann sem er fyrir framan okkur. Við erum ekki hættar og erum tilbúnar í frekari aðgerðir ef þess er þörf,“ segir Zsófia.

Þannig þú telur að það verði fleiri verkföll?

„Já, alveg örugglega. Ekki bara hjá okkur, heldur líka VR, og ég er mjög ánægð með það,“ segir Zsófia að lokum.