Framsókn, Samfylking, Píratar og Viðreisn, sem hafa staðið í viðræðum um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, hafa byrjað textavinnu fyrir nýjan meirihlutasáttmála. Frá þessu var fyrst greint á fréttavef Vísis. Eru því miklar líkur á því að sátt hafi tekist um helstu áhersluefni þessara fjögurra flokka í nýju borgarstjórnarsamstarfi.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, sagði í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 að stefnt væri að stífum fundarhöldum um helgina og að vonir hennar standi til þess að vinnunni við myndun nýs meirihluta verði lokið fyrir þriðjudag. Fyrsti borgarstjórnarfundur nýja kjörtímabilsins verður á þeim degi.