Svo er það líka mýta að maður þurfi að hrjóta eða draga ýsur verulega og jafnvel fara í öndunarstopp til að svo sé.

Þeir sem glíma við dagsyfju eða orkuleysi og hafa ekki fengið góða skýringu á þeim einkennum, ættu að hugleiða skimun fyrir kæfisvefni. Önnur einkenni eru hausverkur að morgni, einbeitingarskortur, aukin svitamyndun að nóttu og jafnvel skert kynhvöt.

Þá er til mikils að vinna að skima hreinlega fyrir þessum sjúkdómi, þar sem hann er í raun sjálfstæður áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdómi, háþrýstingi auk hjartsláttartruflana.

Það er auðvelt að skoða og meta hvort þú glímir við kæfisvefn. Í fyrsta lagi notast læknirinn við spurningalista og fer í gegnum skoðun og mat á sjúklingi. Greiningin fer þó fram með því að sofa með tæki sem nemur hrotur, hreyfingar, öndunartíðni, hjartslátt, súrefnismettun og fall hennar að næturlagi.

Slík tæki eru býsna nákvæm og verulega hjálpleg. Þeir sem greinast með kæfisvefn þurfa að skoða sérstaklega hvort það er eitthvað í þeirra lífsstíl, umhverfi og atferli sem getur ýtt undir hann og losa sig við það. Í sumum tilvikum dugir það eitt og sér, en svo eru til bitgómar, ýmsar aðgerðir eru einnig framkvæmdar en í mjög mörgum tilvikum þarf að nota vél að nóttu til að sofa með, sem heldur ákveðnum þrýstingi á öndunarveginum og þar með súrefnismettun.

Ef þú ert í vafa láttu þá prófa þig!