Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 28. maí 2021
23.00 GMT

Móðir Fidu, Amal Tamimi, sem síðar var fyrsta erlenda konan til að sitja á Alþingi, flutti með fimm börn sín hingað til lands árið 1995 þegar hún skildi við eiginmann sinn.

„Bróðir hennar, Salman Tamimi, sem lést í fyrra, var hér fyrir og hjálpaði okkur í upphafi, en þremur mánuðum eftir að við komum flutti hann til Svíþjóðar.“

Fjölskyldan bjó sér heimili við Álfhólsveg í Kópavogi og lýsir Fida fyrstu árunum sem erfiðum.

„Við þekktum engan, áttum enga peninga og skildum ekkert. Þegar auglýsingabæklingar duttu inn um lúguna vissum við ekki hvort það væru rukkanir, hótanir um útburð eða hvað, þetta voru hræðilegir tímar,“ segir hún.

Fida var eins og fyrr segir 16 ára, næstelst í hópnum, en systir hennar var ári eldri og yngri börnin tíu ára, níu ára og fjögurra ára. Amal, móðir þeirra, sá fjölskyldunni farborða með þrifum í heimahúsum og síðar vinnu í fiski.

„Á þessum tíma voru fáir innflytjendur hér á landi,“ segir Fida, sem lýsir einangrun fjölskyldunnar. „En við áttum rosalega góða nágranna sem voru sífellt að passa upp á okkur, mættu í öll afmæli þegar við kunnum ekki einu sinni að syngja afmælissönginn og komu með kökur og hjálpuðu okkur að líða vel í okkar umhverfi.“


Kerfið gerði ekki ráð fyrir þeim


Fida og systir hennar luku síðasta ári í Austurbæjarskóla og skráðust í Iðnskólann en hún segir að þá hafi áskoranirnar hafist af alvöru.

„Þá vorum við allt í einu orðnar fullorðnar og ekkert sniðið að okkur. Innflytjendur á okkar aldri voru fáséðir og kerfið gerði ekki ráð fyrir okkur. Við fórum í Iðnskólann því það þótti sniðugt að setja okkur í meira verklegt nám en bóklegt.“ Fida segir þær hafa notið sín í verklegu fögunum en ekki náð þeim bóklegu. Hún gafst þó ekki upp strax og reyndi í tvö ár þar til hún flosnaði upp úr námi.

„Ég fór að vinna í Ömmubakstri með mömmu og kynntist þar fólki sem var að fara að vinna í fiski og fór með þeim í það. Þannig bjó maður til sitt eigið samfélag, þar var fólk sem skildi mig. Þar hafði fólk sama útlit, upplifanir og tilfinningar og ég náði að tengja betur við það.“


Einskis virði án menntunar


Fida segir þetta hafa verið erfiða tíma fyrir hana persónulega enda alin upp við mikilvægi menntunar.

„Stríðið í Palestínu hefur nú staðið í 73 ár en menntunarstig þjóðarinnar hefur ekkert lækkað. Mér fannst ég einskis virði án menntunar. Hvernig ætlaði ég að láta rödd mína heyrast og breyta samfélaginu án menntunar? Ég var mjög óhamingjusöm og reið yfir stöðunni. Ég var reið út í Ísland, út í mömmu og út í sjálfa mig. Við komum hingað til að leita að betra lífi en líf mitt var ekkert betra hér.“


„Ég var reið út í Ísland, út í mömmu og út í sjálfa mig."


Fida segir lífið í Palestínu vissulega hafa verið erfitt, bæði vegna stríðsástands og heimilisaðstæðna.

„Það ríkti mikið óöryggi en ég var samt sem áður hamingjusamari enda voru þetta allt utanaðkomandi aðstæður sem ég hafði ekki stjórn á. Ég gat ekki breytt stríðinu en ég gat lært, ég átti vini og gat tjáð mig.“

Situr enn alltaf upp við vegg

Að alast upp við stríðsástand segir Fida setja mark sitt á allt lífið og ástandið á Gaza undanfarið hafi ýft upp sárar æskuminningar.

„Svo nú þegar ástandið er svona á Gaza upplifir maður mikið óöryggi og hræðslu. Reiðin og allar þessar neikvæðu tilfinningar blossa upp.“

Fida segist hafa lifað í stöðugum ótta á meðan hún bjó í Palestínu. „Ég var alltaf hrædd og enn þann dag í dag sit ég alltaf upp við vegg og vil ekki að neinn labbi aftur fyrir mig. Ég skutla dætrum mínum alltaf í skólann og fer ekki fyrr en þær eru komnar inn. Ég reyni að sannfæra mig um að ég sé örugg á Íslandi en maður losnar aldrei alveg við þennan ótta. Ég sef aldrei með lokaða hurð og það er fleira sem aldrei breytist.“


„Ég var alltaf hrædd og enn þann dag í dag sit ég alltaf upp við vegg og vil ekki að neinn labbi aftur fyrir mig."


Eins og fyrr segir hætti Fida í Iðnskólanum og fór að vinna í fiski. Meðfram því tók hún nokkra áfanga í kvöldskóla Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

„Ég var hálfnuð með stúdentspróf en féll alltaf í íslensku og dönsku.“

Þegar hún svo heyrði af háskólabrú Keilis ákvað hún að sækja um skólavist.

„Ég hafði þá reynt að fá undanþágu við Háskóla Íslands en fengið afsvar svo ég var rosalega kvíðin og óttaðist höfnun. Ég var svo boðuð í viðtal og man enn tilfinninguna þegar ég fékk samþykkta skólavist,“ segir Fida og upprifjunin kallar fram tár. „Þar fékk ég jafnframt greiningu á lesblindu og stuðning vegna hennar. Það sem Keilir gerði fyrir mig og marga aðra innflytjendur var ótrúlegt og þannig fékk ég aðgang að háskólanámi,“ segir Fida uppnumin.

Mamma gafst ekki upp

Fida hóf nám í hagfræði við Háskóla Íslands en skipti fljótlega yfir í orku- og umhverfistæknifræði þaðan sem hún lauk prófi.

Fida kynntist eiginmanni sínum, Jóni Kristni Ingasyni, þegar þau störfuðu saman á Olísstöðinni við Álfheima. „Við fórum svo saman í Keili og í framhaldi í háskólanám en hann fór í viðskiptafræði.“

Saman eiga þau Fida og Jón þrjár dætur, átta, tólf og fimmtán ára.

„Ég varð fyrst fyrir alvöru ákveðin í að gefast ekki upp á menntuninni þegar ég vissi að ég ætti von á elstu stelpunni. Ég vildi sýna henni að mamma hennar hefði ekki gefist upp,“ segir Fida og það er augljóst að frásögnin tekur á.

Fjölskyldan hér öll samankomin; Fida og eiginmaður hennar Jón Kristinn Ingason og dætur þeirra þrjár; Watan, Tahrir og Asalah. Mynd/Aðsend

„Ég vissi að þetta væri stelpa og var ákveðin í að vera henni fyrirmynd og veita henni gott líf. Ég var meðvituð um að dætur mínar myndu tilheyra jaðarhóp hér á landi. Þær eru af erlendum uppruna og við blönduð fjölskylda, en faðir þeirra var ættleiddur hingað frá Indónesíu sem kornabarn. Ég hef því í kringum þriðja bekk átt samtal um þessi mál við þær. Þá hafa þær verið farnar að fá athugasemdir frá skólafélögunum.

Ég segi þeim að sumir munu dæma þær vegna nafns þeirra og útlits. Ég veit að oftast er þetta ekki illa meint þegar börn eiga í hlut en ég verð að sjá til þess að mín börn upplifi slíkar athugasemdir ekki á neikvæðan hátt og taki þær ekki inn á sig. Ég hvet þær til að vera þær sjálfar og bendi þeim á jákvæðar kvenkyns fyrirmyndir. Það er erfitt að útskýra fyrir börnum að þetta sé staðan. Að segja þeim að þau verði minni en aðrir því þau séu aðeins dekkri. En ég verð að gera það því við höfum bara daginn í dag og þær verða að vera undirbúnar,“ segir Fida ákveðin.


„Það er erfitt að útskýra fyrir börnum að þetta sé staðan. Að segja þeim að þau verði minni en aðrir því þau séu aðeins dekkri."


Fida vann lokaverkefni sitt í orku- og umhverfistæknifræði ásamt skólafélaga sínum, Burkna Pálssyni. „Ég skoðaði þá áhrif kísils á mannslíkamann og hann hreinsunaraðferðir á kísli. Þegar við útskrifuðumst fengum við enga vinnu enda ekki með neina starfsreynslu. Við sóttum þá um og fengum styrk úr Tækniþróunarsjóði til að halda áfram með lokaverkefnið og stofnuðum þá Geo Silica árið 2012.“ Geo Silica framleiðir náttúruleg íslensk fæðubótarefni og hefur sett á markað fimm vörur.

„Það tók fjögur ár að koma fyrstu vöru á markað og byrjaði auðvitað inni í stofu launalaust. En hún sló í gegn og 2019 fengum við utanaðkomandi fjármagn,“ segir Fida, en fyrirtækið er í dag metið á 700 milljónir króna.

Aðspurð um upphafið segist Fida hafa verið full af eldmóð í upphafi en fengið einhverja bakþanka þegar hún hafði verið launalaus í nokkra mánuði.

„Maður sveiflast upp og niður en þá skiptir máli að trúa á hugmyndina og vera með gott teymi í kringum sig sem hvetur mann áfram. Ég er líka vön að synda á móti straumnum og þekki ekkert annað en að berjast.“

Munurinn eru karlmennirnir


Fida segist oft spurð um muninn á palestínskum konum og íslenskum en palestínskar konur eru þekktar baráttukonur og hafa tekið mikinn þátt í frelsisbaráttu Palestínu.

„Ég svara þá að það sé nánast enginn munur á baráttuviljanum, munurinn sé karlmennirnir. Íslenskir karlar standa með konunum sínum, þar liggur munurinn,“ segir Fida og segir eiginmann sinn þar enga undantekningu.

„Íslenskir karlmenn eru komnir miklu lengra en karlar annars staðar í heiminum og það er að miklu leyti skýringin á því að konur eru komnar þangað sem þær eru hér á landi. Það er kannski skrítið að segja það en stríðið í Palestínu hefur hjálpað konum þar mikið þar sem það hefur ýtt þeim framar. Þær eru í forsvari í baráttu Palestínu og hefur sú staðreynd breytt menningunni mikið. Ég var til dæmis send í eins konar kvennabúðir níu ára gömul. Þar var mér kennt að ég hefði rödd og hvernig ég ætti að bera ábyrgð á henni. Hvernig maður ætti að nýta sér frelsið.“


„Íslenskir karlar standa með konunum sínum, þar liggur munurinn.“


Aðspurð um það hvernig karakter móðir hennar, sem kom hingað ein með fimm börn án þess að tala tungumálið, sé, segir Fida hana mikla baráttukonu.

„Ég veit ekki hvort ég hefði getað gert það sem hún gerði. Það segir mikið um karakter hennar.“

Verða að vita hvaðan þær koma

Systkini Fidu gengu öll menntaveginn og gengur vel í dag en hún segir palestínskan bakgrunninn hafa mikil áhrif á það hver þau eru í dag.

„Við erum svolítið vænisjúk og æst,“ segir hún og hlær. „Það eru mikil læti þegar við komum öll saman. Við erum lítil fjölskylda og eigum okkur ekki sögu hér þó svo við séum öll gift Íslendingum, svo við leggjum mikið upp úr því að börnin okkar tengist og eigi hvert annað að.“

Fida segir kynþáttafordóma aukast því ofar sem hún komist í virðingarstiganum. Í hennar starfi í dag sé hún iðulega eina konan en alltaf eini innflytjandinn. Fréttablaðið/Ernir

Dæturnar þrjár bera allar bæði íslensk og palestínsk nöfn og það er augljóst að sú ákvörðun var Fidu hjartans mál.

„Ég veit að það er erfiðara fyrir þær að bera palestínsk nöfn,“ segir hún og gerir stutt hlé á máli sínu. „Enda eru þær ólíklegri til að fá vinnu með útlenskt nafn. En þær verða að vita hvaðan þær koma.“
Fbl_Megin: Fida hefur frætt þær um upprunaland sitt en þær hafa þó enn ekki heimsótt það. Sú mynd sem birtist þeim í fréttum gerir það að verkum að þær þora ekki að heimsækja heimaland móður þeirra. „Sú ímynd er ekki rétt en þó ég reyni að segja það við þær eru þær hræddar. Elsta systurdóttir mín fór með mér í heimsókn árið 2019, en hún er orðin 21 árs, og hún varð yfir sig hrifin.“

Sjálf reynir Fida að heimsækja Palestínu á tveggja ára fresti enda býr faðir hennar þar ásamt eiginkonu sinni og þremur systkinum Fidu. „Það er gott að upplifa menninguna og hver maður er og fara svo aftur þangað sem maður á heima.“

Talandi um heima viðurkennir Fida að alls staðar sé litið á hana sem útlending. Á dögunum var Fida ein þeirra sem stóðu fyrir mótmælum á Austurvelli vegna hernaðaraðgerða Ísraela í Palestínu.
Fbl_Megin: Þar töluðu allir við mig á ensku. Það sem ég tók út úr þessu var að ég er ekki nægilega mikill Palestínumaður til að talað sé við mig á arabísku og ekki nægilegur Íslendingur til að talað sé við mig á íslensku,“ segir Fida og telur líklegt að dökkt litarhaft hennar og vestrænn klæðaburður rugli fólk í ríminu.

Hvað þarf ég að gera?

Fida viðurkennir að fyrirfram ákveðnar hugmyndir og fordómar sem hún mætir eigi það til að ergja hana.

„Þá hugsa ég, hvað þarf ég að gera til að öðlast jafnan rétt og verða jafningi? Það er nefnilega staðreynd að því hærra sem ég kemst því meiri eru fordómarnir. Ég er í stjórn samtaka sprotafyrirtækja og UN Women og bauð mig á dögunum fram sem formann Félags kvenna í atvinnulífinu. Þá fékk ég að heyra hversu flott það væri að fá einhvern af erlendum uppruna. Ég var ekki að bjóða mig fram af því ég er af erlendum uppruna. Ég er athafnakona. Ég er búin að fara í gegnum þetta sjálf. Frá hugmynd að 700 milljónum. Hvenær þarf ég ekki að byrja samtal á að svara hvaðan ég er og hvort ég tali íslensku?“ segir hún ákveðin.


„Það er nefnilega staðreynd að því hærra sem ég kemst því meiri eru fordómarnir."


„Ég sé stundum að heili fólks er að springa þegar ég tala íslensku því það passar ekki inn í formið. Ég veit að þetta er ekki endilega illa meint en ég verð stundum pirruð. Ég er háskólamenntuð kona, frumkvöðull sem er búinn að byggja upp sitt eigið fyrirtæki og hvað þarf ég að gera meira til að verða jafningi, til þess að við byrjum samtalið á að spyrja hver mín skoðun á einhverju málefni er?“

Fida starfar í fremur karllægum orkugeiranum þar sem hún er oft eina konan og alltaf eini innflytjandinn að eigin sögn.

„Við hjá GeoSilica vorum eitt sinn með kvennakvöld til að kynna vörurnar okkar og ég var að segja gestum frá eiginleikum þeirra. Þá gefa sig þrjár konur á tal við mig, hrósa vörunum og ein spyr hver eigi fyrirtækið. Ég segi að ég eigi það – þetta sé spin off frá lokaverkefni mínu í háskóla. Hún segist vita það að þaðan hafi hugmyndin komið en ítrekar spurningu sína um hver eigi fyrirtækið. Ég segi aftur að það sé ég, ég sé eigandi fyrirtækisins. Þá segir hún: „Who‘s the owner of the company?““ segir Fida og það er augljóst að henni var ekki skemmt. „Þvílíka niðurlægingin fyrir mig, geturðu ímyndað þér hvernig þér myndi líða?“

Spurð hvort hún sé að vinna í Krónunni


Hún segist reyna að hafa jákvæðnina að leiðarljósi en það sé vissulega lýjandi að þurfa að sanna sig hvert sem hún fari.

„Þegar ég er að versla í Krónunni með börnin mín á fólk það til að spyrja hvort ég sé að vinna þar. Af hverju heldur fólk það? Hvers vegna? Fólk leyfir sér að lækka mannréttindastandardinn gagnvart okkur og finnst það mega segja hvað sem er.


„Þegar ég er að versla í Krónunni með börnin mín á fólk það til að spyrja hvort ég sé að vinna þar. Af hverju heldur fólk það? Hvers vegna?"


Þetta er dagleg barátta og stundum verð ég þreytt og reið. Ég er búin að gera þetta allt sem ég var beðin um. Ég er búin að læra málið, ég er búin að skapa vinnu fyrir Íslendinga, mennta mig í íslenskum háskóla og borga margfalt til baka það sem ég fékk. Hvað þarf ég að gera meira til að ég sé ekki spurð hvort ég sé að koma að þrífa?“ segir Fida og rifjar í framhaldi upp nýlega sögu.

„Ég gekk þá inn á kaffistofu þar sem við erum með framleiðslu okkar. Þar sátu nokkrir karlar saman og þegar ég gekk inn stóðu þeir upp og spurðu: „Ertu að koma að þrífa?“ Ég sagði af hverju í fokkinu haldið þið það?“
Fida segir þetta alls ekkert einsdæmi en hún sé loks farin að geta svarað fyrir sig, í fyrstu skiptin átti hún erfitt með að svara og varð lítil í sér.

„Ég hugsaði þá með mér að kannski væri ég ekki búin að vinna mér inn rétt til að vera hér. En það er auðvitað algjört rugl og ég er örugglega með meiri menntun en þessir karlar sem þarna sátu og með mikið meiri reynslu. En ég er kona í karllægu umhverfi og það hefur ekki meikað sens að ég væri þarna nema til að þrífa.“

Fida þurfti að hafa meira fyrir menntun sinni en margir enda talaði hún ekki orð í íslensku þegar hún flutti hingað til lands sextán ára gömul og var stuttu síðar greind lesblind. Fréttablaðið/Ernir

Fida segir það mikilvægt í sínum huga að hafa hátt og láta til sín taka því þannig sé hún bæði fyrirmynd dætra sinna og annarra kvenna af erlendum uppruna.

„Ég ætla að breyta norminu. Þó það sé óþægilegt að fara á hverjum degi út fyrir þægindarammann. Við getum allt sem við viljum. Ég og þú höfum jafna möguleika til að bjóða okkur fram til forseta, það er kannski aðeins erfiðara fyrir mig en ég get það. Ég er til dæmis orðin heimsfræg á Suðurnesjum,“ segir Fida og hlær en hún bæði býr og starfar í Reykjanesbæ.


Fjölskyldan í Jerúsalem


„Ég er þakklát fyrir að hafa endað hér og að dætur mínar alist hér upp þar sem þær geta orðið allt sem þær vilja. Ég vil bara vekja athygli á því sem við mættum laga og treysti á að þjóðin okkar geti lagað það. Ég elska Ísland og alls staðar sem ég fer segist ég koma frá Íslandi og tala um Ísland. Menntun mín er héðan, börnin mín eru hér, starfið mitt er hér og lífið mitt er hér þótt hjartað mitt sé líka í Palestínu.“

Talandi um Palestínu þar sem ófremdarástand hefur ríkt undanfarið segist Fida eiga erfitt með að horfa upp á stöðuna þar og geta lítið gert.

„Ég reyni að vekja athygli á málefnum Palestínumanna og er dugleg að pósta fréttum á samfélagsmiðlum, en það er lítið sem við getum gert hér. Fjölskyldan mín er í Jerúsalem svo þau eru ekki á hættusvæði en líður illa andlega. Það er verið að drepa börn fyrir framan augu okkar. Það verður að stoppa.“ n

Athugasemdir