Heitar umræður eru í gangi á Facebook-síðu blaðakonunnar Ernu Ýrar Öldudóttur í kjölfar fréttar Fréttablaðsins um að Píratinn Snæbjörn Brynjarsson hafi veist að Ernu með ofbeldishótunum á Kaffibarnum um helgina.

Sjá einnig: Varaþingmaður Pírata hellti sér yfir blaðakonu

Snæbjörn hefur þegar sagt af sér varaþingmennsku fyrir Pírata en Erna Ýr segist á Facebook ekki gefa túkall fyrir skýringar hans á framkomu sinni. Erna segist hafa verið í ánægjulegum samræðum á reyksvæði Kaffibarsins aðfararnótt laugardagsins þegar Snæbjörn hafi komið aðvífandi og sagt við hana: „Erna, ég hata þig, mig langar að berja þig.“ Þá hafi hann skorað á hana að mæta sér fyrir utan staðinn.

Pírataþingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson blandar sér í umræðurnar við þessa færslu Ernu og dregur atburðalýsingu Ernu í efa með vísan til þess að sjálfur hafi hann staðið hana að því að hafa rangt eftir honum innan gæslappa.

Sjá einnig: Píratar harma framkomu Snæbjörns

„Gæsalappir utan um þessa tilvitnun. Ertu alveg viss? Ég spyr af því að þú hefur áður farið rangt með beina tilvitnun,“ skrifar Björn Leví en hann amaðist nýlega við því að blaðamaður hafi afbakað orð hans í beinni tilvitnun og í ljósi þessa má ætla að þar hafi hann átt orðastað við Ernu Ýr sem starfar hjá Birni Inga Hrafnssyni á Viljinn.is.

Sjá einnig: Stóðu með húfur við hlið Bergþórs í pontu: Fokk ofbeldi

Erna Ýr er skjót til svars: „Nei Björn Leví, það hef ég ekki gert. Síðan hvenær ert þú, sem ert svo annt um fólk sem verður fyrir ruddaskap og ofbeldi, farinn að efast um þeirra frásagnir?,“ spyr hún með augljósri vísan í uppákomuna á Alþingi þegar Björn Leví og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir stilltu sér upp sitthvoru megin við Bergþór Ólason í ræðustól, með FO, fokk ofbeldi, húfur á höfðinu.

Skelkuð eftir erfiða reynslu

Björn Leví sér þá ástæðu til þess að árétta að hann dragi frásögn Ernu Ýrar ekki efa þótt hann efist um þessa beinu tilvitnun. „Bara til þess að hafa þetta á algerlega hreinu. Ég efast ekkert um frásögn Ernu. Ég spurði bara um notkun á beinni tilvitnun. Ég hef ástæðu fyrir því.“

Sjá einnig: Snæbjörn segir af sér sem varaþingmaður Pírata

Erna Ýr er þó ekki tilbúin til þess að sleppa honum og ítrekar spurningu sína: „Björn Leví Gunnarsson þú hikar samt ekki við að reyna að grafa undan frásögn minni og starfi mínu í leiðinni. Hvað varð um FO?“

Erna Ýr segist í færslu sinni ekki láta margt setja sig úr skorðum en hún sé nokkuð skelkuð eftir þessa reynslu. En „eftir að hafa jafnað mig aðeins og hugsað málið í samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum misserum, þykir mér þetta óþægilega atvik eiga erindi við almenning, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem Snæbjörn hefur gegnt á Alþingi.“

Sjá einnig: Snæbjörn fór úr járnum á þing

Hún tekur einnig fram að hún þekki Snæbjörn ekki neitt og hafi aldrei talað við hann í eigin persónu. „Valkvætt minni hans um ógnandi framkomu sína og orð í minn garð, ásamt kjánalegum og ótrúverðugum skýringum sem hann gefur Fréttablaðinu, gefa tilefni til að efast um dómgreind hans og hugmyndir um hlutverk fjölmiðla í lýðræðisríki. Afsökunarbeiðni Snæbjörns, skreytt þeirri aukaskýringu að hann hafi verið „í glasi” er því ekki túkallsins virði.“