Erlendur sjálfboðaliði, sem var í ólöglegri vinnu á blóðtökubæ nálægt Hvolsvelli árið 2017, segir dýralækni hafa sleppt því að hreinsa og binda um djúpan skurð á lend blóðmerar sem hafði slasast í blóðtökubási.

Bóndi hafi sagst ætla að senda fjórar fylfullar hryssur sem létu illa við blóðtöku, beint í slátrun.

Vissu ekki af blóðtökunni fyrir fram

Ali Shearman, bandarísk kona, var meðal sjö erlendra sjálfboðaliða sem aðstoðuðu við blóðtöku á bæ á Suðurlandi. Þau voru öll ráðin í gegnum vefsíðuna Workaway.

Ali vann á blóðtökubæ árið 2017.
Mynd: Aðsend

Fréttablaðið greindi frá því árið 2017 að sjálfboðaliðar hefðu gengið í hin ýmsu verk fyrir bændur í gegnum sjálfboðaliðasíður á borð við Workaway og Helpx. Að mati ASÍ var um klárt lögbrot að ræða og tók formaður Bændasamtakanna undir með því.

Fréttablaðið 1. febrúar 2017

Ali greinir frá reynslunni á bloggsíðu sinni og veitir Fréttablaðinu leyfi að deila henni. Þar segist hún ekki hafa haft hugmynd um að hún myndi aðstoða við blóðtöku.

„Við skráðum okkur svo sannarlega ekki í þessa vinnu. Við sömdum um að búa hjá gestgjafanum okkar og vinna í garðinum hennar. Hvergi á síðunni var minnst á blóðtöku hesta og þess var aldrei getið í neinum skilaboðum áður en við lögðum af stað til Íslands,“ útskýrir Ali.

„Mér finnst augljóst að tilgangur bóndans við að fá okkur til vinnu var að spara pening. Það var ódýrara að hafa sjö manns í mat og gistingu en að hafa sjö starfsmenn á launum.“

Blóðmeri á leið í blóðtökubás og folald.
Mynd: Aðsend

Sýndu merki um streitu þegar dýralæknirinn mætti

Ali segir blóðsýnataka, til að athuga hvort blóðmerar væru með nægilegt PMSG í blóðinu, hafi ávallt farið vel og hratt fram. Eftir sýnatökuna fengu blóðmerarnar að hitta folöldin aftur og virtust jafna sig ótrúlega vel eftir að þær yfirgáfu blóðtökubásinn.

Það var ekki fyrr en dýralæknirinn mætti á svæðið og blóðtakan sjálf hófst að hryssurnar fóru að sýna merki um ótta og streitu að sögn Ali.

„Við sáum stóran hvítan pallbíl renna í hlað. Maðurinn sem keyrði bílinn var fúll á svipinn í druslulegum bol með blóðslettum. Í bílnum voru stórir plastbrúsar í málmkassa. Bóndinn hjálpaði honum að afferma bílinn.“

Hryssurnar sýndu strax merki um streitu þegar þær sáu manninn að sögn Ali. „Ein hryssnanna byrjaði að krafsa í jörðina og frýsa.“

Mynd: Aðsend

Segir bóndann hafa ætlað að slátra fjórum blóðmerum

Ali segir eina rauða hryssu enn ofarlega í huga. „Þegar það kom að henni hljóp hún snælduvitlaus í átt að Leslie og við sjálfboðaliðarnir reyndum eftir bestu geta að beina henni í átt að básnum.“

Hún segir bóndann hafa fylgst með og kallað sjálfboðaliðana fávita fyrir að geta ekki róað hryssuna niður og komið henni inn í básinn. Bóndinn hafi skipað sjálfboðaliðunum að öskra og þykjast vera reið en sjálfboðaliðarnir ákváðu að mynda keðju og beina hestinum þannig í rétta átt.

„Ég ætla að borða merina. Hún er illskan uppmáluð,“ hefur Ali á eftir bóndanum en Ali vissi þá ekki að hrossakjötsát væri löglegt á Íslandi.

„Ég ætla að senda þessa í sláturhúsið og hafa hana í kvöldmatinn,“ hafi þá bóndinn sagt.

Þegar hryssan komst í blóðtökubásinn lét hún öllum illum látum og skallaði básinn ítrekað.

„Hún glefsaði í loftið og stappaði niður fótum og sparkaði ítrekað í hliðið á básnum. Þegar hún róaðist niður í stutta stund sló dýralæknirinn hana í andlitið.“

Hryssan hafi þá prjónað og krækt framfætur í grindverkið þar til það brast undan þunga hennar og hún slapp.

Þrír aðrar hryssur voru einnig með mótþróa eftir uppátæki hryssunnar og lýsti þá bóndinn yfir að hann ætlaði líka að slátra þeim.

„Ætlarðu í alvöru að slátra fylfullri meri?“ spurði þá Ali og segist hafa fengið svörin: „Við getum ekkert nýtt folaldið. Það verður alveg jafn klikkað og merin.“

Sjálfboðaliðarnir hafi svo aðstoðað bóndann við að koma hestunum í kerru á leið í sláturhúsið að sögn Ali.

Folald bíður eftir móður sinni.
Mynd: Aðsend

Dýralæknirinn hafi rétt litið á sárið

Ali segir að versta tilfellið sem hún varð vitni var þegar bóndinn stakk óvart hryssu í lendina með oddhvössu járnpriki.

„Prikið flæktist svo í taglinu á hestinum og það tók nokkrar mínútur að losa prikið.“

Bóndinn hafi fullvissað sjálfboðaliðana að dýralæknirinn myndi líta á sárið en Ali tók eftir að skurðurinn var nokkuð djúpur.

Þegar dýralæknirinn mætti á svæðið fór blóðtakan fram eins og venjulega. Að sögn Ali leit dýralæknirinn rétt svo á sárið og sleppti henni svo að lokinni blóðtöku. Sárið var enn opið og blóðið var ekki búið að storkna. Þá mátti sjá blóðslóð eftir hryssuna á túninu.

„Þetta var það versta sem ég varð vitni að.“