Erlendur karlmaður sem kom hingað til lands með ungan dreng í för án ferðaskilríkja er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Grunur er um að barnið hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi og vanvirðandi háttsemi. Lögreglan segir sömuleiðis rökstuddan grun fyrir að um mansalsmál sé að ræða og að maðurinn standi ekki einn að flutningi barnsins milli landa og hingað til lands.

Maðurinn og drengurinn komu saman með flugi frá Kaupmannahöfn 28. apríl síðastliðinn með fölsuð vegabréf. Í viðræðum við lögreglu óskaði maðurinn eftir alþjóðlegri vernd fyrir hönd hans og drengsins og kvaðst hafa verið á flakki um Evrópu í þrjú ár ásamt barninu og hafi verið í sambandi við skyldmenni drengsins. Þá framvísaði hann pappír sem hann sagði heimila honum að ferðast með barnið.

Lögreglan vinnur að því að bera kennsl á aðila og barnið og rekja ferðir þeirra og forráðamenn barnsins í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld.
Fréttablaðið/Anton Brink

Lögregla segir sögu mannsins og skjalið ótraust og að sérfræðingar geti ekkert fullyrt um gildi innihaldsins. Sömuleiðis viðurkenndi maðurinn fyrir dómi að hafa upphaflega ekki gefið réttar skýringar á veru sinni með barninu hér á landi og breytti framburði sínum og gaf upp nöfn á einstaklingum sem hann sagði tengjast komu barnsins hingað til lands.

Farið var fram á gæsluvarðhald yfir manninum og var það staðfest bæði í héraðsdómi og Landsrétti.

„Framburður varnaraðila er afar ótrúverðugur og reikull bæði varðandi fyrri dvöl í Evrópu, ferðaleið og um barnið,“ segir í málsatvikum í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness.

Landsréttur staðfestir úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir manninum. Það rennur út klukkan 16 í dag nema að lögreglan fái samþykkt að framlengja gæsluvarðhaldi.

Alþjóðleg rannsókn

Uppruni barnsins er óljós og leitar nú lögreglan allra leiða að staðfesta kennsl þess og dvöl innan Schengensvæðisins og leitar útskýringa á veru barnsins þar án foreldra. Meðal annars er verið að rannsaka möguleg tengsl mannsins við vitorðsmenn hér á landi og erlendis.

Sími mannsins er meðal gagna í málinu en lögreglan vinnur einnig að því að rekja ferðir mannsins út frá framburði hans. Rannsóknin er umfangsmikil og unnin i samstarfi við erlend lögregluyfirvöld.

Landsréttur staðfesti síðasta mánudag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um gæsluvarðhald yfir manninum til klukkan 16 í dag, fimmtudaginn 19. maí.