Árið 2018 er senn á enda og nýtt tekur við. Fréttablaðið lítur yfir þær erlendu fréttir sem settu svip sinn á árið. Donald Trump er á sínum stað. Það er Brexit og Norður-Kórea einnig en við skulum byrja á því að líta til Bandaríkjanna.

Donald Trump

Frá því Donald Trump skellti sér í forsetaframboð í Bandaríkjunum hefur líklega enginn verið viðfangsefni fleiri blaðamanna og fáir fengið jafnmikla athygli. Engin breyting varð á þessu á árinu sem er að líða og settu miðkjörtímabilskosningar, leiðtogafundir, samningar, tollastríð og hæstiréttur svip sinn á árið hjá þessum umdeilda leiðtoga.

Miðkjörtímabilskosningarnar fóru fram í nóvember og einblíndi Trump mjög á svokallaða flóttamannalest sem var á leiðinni frá Mið-Ameríku fyrir kosningarnar í von um að tryggja að dyggir stuðningsmenn hans mættu á kjörstað. 

Uppskeran var góð í öldungadeildinni þar sem Repúblikanar héldu meirihluta, bættu meira að segja við sig. Það skýrist þó að mestu af hagstæðu „korti“ enda ekki kosið um nema þriðjung sæta. Allt aðra sögu var að segja af fulltrúadeildinni þar sem meirihluti Repúblikana kolféll. Trump lýsti þó yfir sigri sinna manna.

Eitt af hitamálum kosninganna, og reyndar ársins eins og það leggur sig, var svo skipan Bretts Kavanaugh í hæstarétt Bandaríkjanna. Anthony Kennedy var á leiðinni á eftirlaun svo Trump valdi Kavanaugh sem eftirmann hans. Útlit var fyrir að öldungadeildin myndi samþykkja hann án mikilla vandræða. 

Það er að segja þangað til Christine Blasey Ford og tvær aðrar konur stigu fram og sökuðu Kavanaugh um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Dómsmálanefndin var kölluð aftur saman til að hlýða á vitnisburð Ford og Kavanaughs að ósk Repúblikanans Jeffs Flake þar sem Kavanaugh var í greinilegu tilfinningalegu uppnámi og neitaði sök. Ford sagðist aftur á móti „hundrað prósent“ viss. Að endingu var Kavanaugh skipaður í hæstarétt og Trump lýsti yfir sigri.

Eftir að hafa dregið Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu á síðasta ári tók Trump sams konar ákvörðun nú í ár. Sagði Bandaríkin úr kjarnorkusamningnum við Íran, við litla hrifningu Evrópu, Kína og Rússlands.

Stormasamt samband við helstu bandamenn vakti líka athygli. Trump háði tollastríð við Kanada og Evrópu og hnakkreifst á G7-fundi. Þá húðskammaði hann aðildarríki Atlantshafsbandalagsins fyrir að „greiða ekki nógu mikið til bandalagsins“. Á G20-fundi nú um síðustu mánaðamót var svo undirritaður nýr fríverslunarsamningur Norður-Ameríkuríkja sem Trump er hæstánægður með. Enn stendur þó yfir tollastríð við Kína en vopnahlé ríkir um þessar mundir vegna viðræðna.

Á meðan Trump reifst við bandamenn var hann húðskammaður sjálfur fyrir að sýna Pútín Rússlandsforseta of mikla velvild. Á fundi með honum í Helsinki vildi Trump til að mynda ekki fordæma óeðlileg afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016.

Þær kosningar eru svo síðasta málið sem hér verður talið upp enda stendur rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, á þeim afskiptum og meintu samráði Trump-framboðsins við Rússa, enn yfir. Í tengslum við rannsóknina hefur Paul Manafort, áður kosningastjóri, verið dæmdur í fangelsi og Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi, játað sekt sína. Ítrekað hefur mátt lesa sömu fyrirsögnina í erlendum miðlum þar sem því er haldið fram að hringurinn þrengist um Trump.

Norður-Kórea

2017 var ár mikillar togstreitu á Kóreuskaga. Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hótaði að sprengja bandarísku eyna Gvam og gerði fjölda eldflauga- og kjarnorkutilrauna. Strax í nýársávarpinu kvað þó við nýjan tón þar sem hann boðaði sættir.

Viðræður hófust fljótlega um að senda lið til þátttöku á Vetrar­ólympíu­leikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu. Það gekk eftir og viðræður héldu áfram á milli ríkjanna.

Kim opnaði sig fyrir umheiminum, reyndar að takmörkuðu leyti, og sótti allnokkra leiðtogafundi. Hann heimsótti fyrst Xi Jinping, forseta Kína í mars. Mánuði síðar heimsótti hann svo bæinn Panmunjom á landamærunum við Suður-Kóreu og átti fund með Moon Jae-in, þann fyrsta af þremur á árinu. Þar undirrituðu þeir viljayfirlýsingu um kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans og formleg endalok Kóreustríðsins.

Yfirlýsingin sem gefin var út eftir fund Kim með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Singapúr í júní var svo á sömu nótum.

Þótt Norður-Kórea hafi lokað tilraunastöðvum og átt í löngum og erfiðum viðræðum á árinu er aftur á móti komin nokkur pattstaða í málið núna. Norður-Kórea neitar að halda áfram kjarnorkuafvopnun nema Bandaríkin aflétti viðskiptaþvingunum en Bandaríkin neita að aflétta þvingunum nema Norður-Kórea afvopnist. Ákveðin pattstaða.

Ýmsir skýrendur hafa haldið því fram að aflétting þvingana sé langstærsta ástæðan fyrir því að Kim hafi opnað sig á árinu. Það verður að koma í ljós eftir áramót hvort það heldur.

Lýðræðið

Fjölmargir gengu að kjörborðinu á árinu um heim allan. Forsetar, þing, sveitarstjórnir og allt þar á milli voru á kjörseðlunum. Í Evrópu var Milos Zeman endurkjörinn forseti Tékklands og Michael Higgins á Írlandi, popúlistaflokkar náðu völdum á Ítalíu, Vladímír Pútín náði endurkjöri eins og allir vissu og öfgaíhaldsflokkur Viktors Orban í Ungverjalandi hélt völdum. Það gerði flokkur Erdogans í Tyrklandi sömuleiðis í fyrstu kosningum frá umdeildum stjórnarskrárbreytingum sem juku völd forsetans verulega.

Óvæntar kúvendingar urðu í Pakistan og Malasíu þar sem stjórnarandstaðan tók við völdum eftir harða baráttu. Kosningabaráttan varð blóðug í Pakistan og einkenndist af árásum á frambjóðendur og kjósendur.

Sé litið sérstaklega til Norðurlandanna er vert að taka fram að Sauli Niinistö fór létt með að ná endurkjöri til forseta Finnlands. Ekkert er hins vegar létt við stöðuna sem tók við eftir þingkosningar í Svíþjóð þar sem ekki hefur enn tekist að mynda stjórn. Meðal annars vegna þess að hvorki hægri né vinstri blokkin ná hreinum meirihluta þar sem þjóðernispopúl­ískir Svíþjóðardemókratar tóku allnokkur þingsæti.

Hinum megin við Atlantshafið var nýr forseti kjörinn í Mexíkó, vinstripopúlistinn Andrés Manuel López Obrador. Nicolas Maduro náði endurkjöri til forseta Venesúela í kosningum sem almennt eru álitnar marklausar. Greint er frá bandarísku miðkjörtímabilskosningunum í kaflanum um Trump forseta en brasilísk hliðstæða hans, Jair Bolsonaro, var kjörinn forseti Brasilíu eftir að hafa orðið fyrir hnífsstunguárás í kosningabaráttunni.

Hamfarir

Líkt og á hverju einasta ári settu náttúruhamfarir sinn svip á árið sem er að líða. Jarðskjálftar, skógareldar, eldgos, fellibyljir og flóðbylgjur ollu gríðarlegu tjóni og urðu þúsundum að bana. Vísindamenn óttast að loftslagsbreytingar valdi því að þessi þróun haldi áfram og staðan muni einfaldlega versna.

Jarðskjálfti, 7a,5 stig, reið yfir Papúa Nýju-Gíneu í febrúar. Skjálftinn og eftirskjálftarnir urðu um 200 manns að aldurtila. Fleiri skjálftar urðu síðar á árinu. 6,9 stiga skjálfti varð á indónesísku eyjunni Lombok í ágúst. Þá fórust á sjötta hundrað. Enn öflugri skjálfti varð svo við indónesísku eyjuna Sulawesi í september. Flóðbylgja fylgdi í kjölfarið. Að minnsta kosti 2.256 fórust í hamförunum, þeim mannskæðustu á árinu. Í júní gaus svo Volcán de Fuego í Gvatemala og varð 109 að bana.

Auknum öfgum í veðurfari fylgja flóð, fellibyljir og skógareldar. Hundrað fórust á Attíkuskaga Grikklands í umfangsmiklum skógareldum þar sem fólk varð innlyksa, meðal annars vegna ólöglegra bygginga. Álíka margir fórust í Kaliforníu í nóvember þar sem heilu bæirnir brunnu til grunna. Þá er ótalin hitabylgja í Pakistan í maí. Svo skæð að á sjötta tug fórust.

Vegna gífurlegrar úrkomu fórust um áttatíu í flóðum í Norður-Kóreu í september. Mánuði síðar var sömu sögu að segja í Nígeríu þar sem um 200 fórust og í júlí fórust um 225 í Japan. Verstu flóðin urðu í Kerala á Indlandi þar sem nærri 500 fórust. Það vakti svo heimsathygli þegar tókst að bjarga tólf taílenskum fótboltastrákum úr helli í Chiang Rai-fylki eftir að þeir urðu innlyksa vegna úrfellis.

Fjölmargir fellibyljir settu svip sinn á árið. Á Kyrrahafi banaði Rumbia 53 í Austur-Kína í ágúst. Skæðasti bylurinn var þó Mangkhut sem gekk á land á Filippseyjum í september og var þá á fimmta stigi. Hann fór síðar yfir til Hong Kong. Alls fórust 134 vegna Mangkhuts.

Á Atlantshafinu var Michael skæðastur. Eftir að hann hafði farið yfir Karíbahafseyjar gekk hann á land við Mexico Beach í Flórída í október og var á fjórða stigi. Sextíu fórust í hamförunum.

Brexit og Novichok

Tvö mál settu svip sinn á árið umfram önnur á Bretlandi. Annars vegar efnavopnaárás á þau Skrípal-feðgin sem gerð var í Salisbury í mars. Vestræn ríki töldu sig, og telja enn, fullviss um að Rússar hafi staðið að árásinni enda eitrið, Novichok, rússneskt og fórnarlambið fyrrverandi gagnnjósnari og meintur landráðamaður. Rúmlega hundrað rússneskum erindrekum var sparkað frá Bretlandi og vinaríkjum á meðan Rússar svöruðu í sömu mynt.

Tveir Rússar eru sakaðir um árásina, þeir Alexander Petrov og Rúslan Bosjírov.

Það virðast þó ekki vera þeirra réttu nöfn heldur hafa rannsóknarblaðamannasamtökin Bellingcat fullyrt að um sé að ræða leyniþjónustumennina Alexander Mískín og Anatolíj Tsjepíga.

Útgangan úr Evrópusambandinu hefur verið áberandi núna á síðustu mánuðum ársins. Þingið hefur reyndar rætt hana linnulaust frá áramótum en hiti komst í málið þegar Theresa May forsætisráðherra fékk samþykkt í ríkisstjórn í júlí að útgangan yrði „mjúk“. Í því felast aukin áframhaldandi tengsl við ESB. Þetta leiddi til afsagnar utanríkis- og Brexitmálaráðherra auk nokkurra annarra.

Með þessa stefnu að leiðarljósi tókst Bretum að semja við ESB í nóvember. Samningurinn var samþykktur í ríkisstjórn þann 14. nóvember.

Nýr Brexitmálaráðherra var hins vegar ósáttur og sagði af sér auk annarra valdaminni ráðherra.

Samningurinn er einna helst gagnrýndur fyrir sérstaka varúðarráðstöfun um fyrirkomulag landamæra við Norður-Írland. Varúðarráðstöfunin tæki gildi ef ekkert samkomulag næðist um fyrirkomulagið og felur í sér eiginlegan aðskilnað Norður-Írlands frá Bretlandi þar sem það yrði fellt undir mun stærri hluta reglna sambandsins.

Þetta ákveðna atriði var kornið sem fyllti mæli margra og fóru vantrauststillögur að berast til Íhaldsflokksins. Þær urðu svo nógu margar þegar May frestaði atkvæðagreiðslu þingsins um samninginn í desember, vegna þess að þingið hefði hafnað honum, en May stóð af sér vantraustið.

Nú er útlit fyrir samningslausa útgöngu. Þingið virðist ekki haggast mikið og stór hluti Íhaldsflokksins er andvígur May.

Minna en hundrað dagar eru til stefnu og óljóst hvort stjórn May sitji þá alla.

Stríð, ofbeldi og ofsóknir

Enn er stríð í Sýrlandi og Jemen. Blaðamenn eru myrtir í stórum stíl, þjóðflokkar ofsóttir og mótmæli verða ofbeldisfull.

Borgarastríðið í Sýrlandi verður átta ára í mars. Lítið hefur verið stórt þaðan að frétta á árinu frá því meint efnavopnaárás var gerð á bæinn Douma. Sú vakti hörð viðbrögð andstæðinga Sýrlandsforseta og gerðu Bandaríkin, Bretland og Frakkland loftárásir í kjölfarið við litla hrifningu Assads forseta og Rússlands.

Augu alþjóðasamfélagsins hafa þess í stað beinst að Jemen þar sem uppreisnarsamtök Húta, sem eru sögð njóta stuðnings Írans, takast á við stjórnarliða sem njóta stuðnings Sádi-Araba. Styrjöldin er harmleikur fyrir almenna borgara sem þurfa að takast á við loftárásir, sult og sjúkdóma. Rannsakendur á vegum SÞ fordæmdu báðar fylkingar fyrr á árinu og sögðu þær mögulega sekar um stríðsglæpi.

Samkvæmt Nefndinni um verndun blaðamanna hafa að minnsta kosti 53 blaðamenn verið myrtir á árinu. Án nokkurs vafa vakti mesta athygli morðið á hinum sádiarabíska Jamal Khashoggi sem var myrtur og sundurlimaður í Istanbúl í Tyrklandi í október. Sádiarabíski krónprinsinn Mohammed bin Salman er sagður hafa fyrirskipað eða vitað af morðinu og hefur það, sem og hinir meintu stríðsglæpir í Jemen, svert orðsor hans verulega. Einnig ber að nefna þá þrettán sem hafa verið myrtir í Afganistan sem og Slóvakann Ján Kuciak sem rannsakaði spillingu í ríkinu.

Blaðamenn eru sömuleiðis ofsóttir. Til dæmis Reuters-blaðamennirnir Wa Lone og Kyaw Soe Oo í Mjanmar. Þeir hafa verið í fangelsi í rúmt ár vegna brota á löggjöf um ríkisleyndarmál sem þeir frömdu, að sögn dómstóla, er þeir fjölluðu um fjöldamorð á Róhingjum.

Ofsóknir á hendur Róhingjum eru enn í fréttum eftir meinta blóðuga herferð stjórnvalda í Rakhine-ríki Mjanmars á síðasta ári. Fyrr á árinu sögðu rannsakendur SÞ að herforingjar gætu hafa gerst sekir um þjóðarmorð.

Víða braust út ofbeldi þar sem mótmælendur höfðu safnast saman. Til að mynda þegar ísraelskir hermenn skutu á palestínska mótmælendur við landamæri Ísraels og Gasasvæðisins. Þá hafa að minnsta kosti átta farist í mótmælum, eða óeirðum, frönsku hreyfingarinnar sem kennir sig við gul vesti.