Stórfréttin úr íslensku kosningunum, samkvæmt erlendu miðlunum, er að í fyrsta sinn í sögu Evrópu fá fleiri konur sæti á þingi en karlar. Ísland kaus í gær 33 konur inn á þing, sem fá þá 52 prósent þingsætanna. Svíþjóð er með næst hæsta hlutfall þingkvenna með 47 prósent.
Íslensku kosningarnar vöktu mikla athygli erlendis í aðdragandanum, meðal annars fyrir það hversu margir flokkar áttu möguleika á að komast á þing. Þá var einnig áhugi á því að sjá hvort ríkisstjórnin myndi halda velli og hvernig mismunandi áherslur flokkanna í loftslagsmálum myndu spila inn í.
Breska fréttamiðillinn The Guardian greinir frá þessu og segir kosningarnar hafa sett Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna, í óvissa stöðu þrátt fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir hafi haldið velli og gott meira. Þau ræddu við hina 85 ára Ernu sem segist hafa beðið allt sitt líf eftir því að sjá konur í meirihluta.
Eva Önnudóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við fréttastofu The Guardian að þriggja flokka stjórn með Vinstri grænum sé enn möguleiki þar sem loftslagsmálin voru ofarlega í hugum kjósenda og það gæti haft áhrif á stjórnarmyndunarviðræður.
Nýju tíðindin voru einnig í fréttum í Frakklandi en þar fjallar franski fréttamiðillinn France24 um nýja Evrópumetið. Þeir vitna í Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem segjast vera opnir fyrir því að ræða áframhaldandi samstarf við Vinstri græna.
En þó svo að þetta Evrópumet hafi fallið í hendur Íslendinga þá eru nokkur önnur lönd sem hafa áður verið með kvenna meirihluta á þingi. Eins og er eru Rúanda, Kúba, Nikaragúa, Mexíkó og Arabíska furstadæmið öll með 50 prósent konur á þingi eða fleiri.