Er­lendir ferða­menn finna fyrir miklu öryggi þegar þeir ferðast um Ís­land, en níu af hverjum tíu sem sóttu landið heim í fyrra sögðust upp­lifa sig mjög örugga hér á landi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun Ferða­mála­stofu.

Rúm­lega þrettán þúsund er­lendir ferða­menn sem heim­sóttu landið á tíma­bilinu júní til desember 2021 tóku þátt í könnuninni, sem er ætlað að gefa skýrari mynd af at­ferli og við­horfum ferða­manna á Ís­landi.

Spurðir að því hvaðan hug­myndin að Ís­lands­ferðinni hefði komið nefndu 95 prósent svar­enda náttúru landsins eða ein­stök fyrir­bæri. Þá hafði mikill meiri­hluti ferða­manna ekki komið áður til landsins, eða átta af hverjum tíu.

Níu af hverjum tíu komu hingað til lands í frí, en rétt um fimm prósent voru að heim­sækja vini eða ættingja.

Mikill meiri­hluti svar­enda heim­sótti höfuð­borgar­svæðið, eða ríf­lega níu af hverjum tíu ferða­mönnum, og rúm­lega átta af hverjum tíu heim­sóttu Suður­land. Þá heim­sóttu hlut­falls­lega fæstir Vest­firði, eða tæp­lega fimmtungur.

Náttúru­böð, spa-með­ferðir og dekur voru vin­sælasta af­þreyingin, en sex af hverjum tíu nýttu sér slíka þjónustu og sögðust níu­tíu prósent þeirra á­nægð með hana.

Lang­flestir voru á­nægðir með Ís­lands­ferðina, en nærri átta af hverjum tíu voru á­nægðir. Banda­ríkja­menn og Bretar voru á­nægðastir allra þjóð­erna, eða rúm­lega níu af hverjum tíu. Þá sögðu tæp­lega sjö­tíu prósent svar­enda mjög lík­legt að þau myndu mæla með Ís­landi sem á­fanga­stað við fjöl­skyldu, vini eða vinnu­fé­laga.