Svandís Svavars­dóttir matvælaráðherra segir að skilmálum fyrir loðnuveiðum verði ekki breytt á miðri vertíð.

Norðmenn hafa kvartað sáran yfir því að hafa styttri veiðitíma og að fá aðeins að veiða með nót á íslenskum miðum, ólíkt bæði Færeyingum og Grænlendingum.

Þá hefur norski sjávarútvegsráðherrann, Bjørnar Skjæran, hótað sams konar takmörkunum á þorskveiði íslenskra skipa í Barentshafi.Íslendingar fá að veiða þorsk í Barentshafi á grundvelli Smugusamningsins svokallaða.

Þar er kveðið á um að Norðmenn fái að veiða loðnu við Íslandsstrendur í staðinn.Rammasamningur um loðnuveiðar er frá 2018. Árlegir strandríkjafundir eru haldnir í tengslum við hann.

„Á síðasta fundi settu Norðmenn ekki fram athugasemdir eða óskir um breytt skilyrði veiða þeirra, sem er að finna í tvíhliða bókun Íslands og Noregs við rammasamninginn,“ segir Svandís. Hún ræddi síðast við Skjæran í byrjun febrúar.

„Þá er vert að hafa í huga að undanfarin ár hefur kvóti fyrir loðnu verið mjög takmarkaður, en samkvæmt þeim samningum og skilmálum sem Ísland hefur gert hafa erlend skip ávallt fengið fyrstu tonnin sem úthlutað er á hverri vertíð, norsk skip þar með talið,“ segir Svandís.