Fulltrúi svissnesku dýraverndarsamtakanna Animal Welfare Foundation/​Tierschutzbund Zürich (AWF/TSB) afhentu Svandísi Svavarsdóttir matvælaráðherra undirskriftalista um að hætta framleiðslu á hormóninu eCG, eða PMSG, sem finnst í blóð fylfullra hryssa. Rúmlega þrjú þúsund manns frá þýskumælandi Evrópulöndum hafa skrifað undir listann.

Líftæknifyrirtækið Ísteka kaupir blóð af bændum og vinnur úr því hormón til að framleiða frjósemislyf fyrir húsdýr sem er svo selt til erlendra lyfjafyrirtækja og bænda. Um er að ræða umdeildan iðnað sem hefur verið gagnrýndur síðan fyrrnefnd dýraverndarsamtök birtu myndband sem sýndi dýraníð á íslenskum bæjum.

Berglind Häsler og Iðunn María Guðjónsdóttir tóku á móti undirskriftunum á fjarfundi fyrir hönd ráðherrans og ráðuneytisins en Svandís var þá á ríkisstjórnarfundi. York Ditfurth, stjórnarmeðlimur AWF og framkvæmdastjóri TSB og Sabrina Gurtner, fulltrúi TSB veittu þeim undirskriftalistann.

„Þið eruð þjóð sem elskar hesta og blóðmerahald getur ekki verið hluti af ykkar framtíð.“

70 þúsund undirskriftir eftir umfjöllun Guardian

„Við vorum í áfalli yfir þeim kerfisbundnum vanda sem við urðum vör við á Íslandi,“ útskýrði York um rannsókn AWF/TSB á blóðmerahaldi á Íslandi. Samtökin vörpuðu ljósi á hryllilegar aðstæður í blóðmerhald í Suður-Ameríku árið 2015. Þar er fóstureyðing framkvæmd svo hægt sé að stunda blóðtöku á tveimur tímabilum á ári. Í kjölfarið hættu öll evrópsk og norður-amerísk lyfjafyrirtæki og svínabændur að versla PMSG frá Suður-Ameríku og byrjuðu að kaupa frá evrópskum framleiðendum, það er frá Íslandi. Þau útskýrðu á fjarfundinum að eftir að blóðframleiðsla færðist að mestu leyti yfir til Íslands hafi samtökin ákveðið að kanna hvernig staðið væri að blóðtökum á Íslandi. Úr varð 120 blaðsíðna skýrsla og 20 mínútna myndband.

Undirskriftalistinn er af vefsíðu samtakanna en York tók sérstaklega fram að hún sé ekki opinber síða fyrir undirskriftalista en vert er að nefna að önnur undirskriftasöfnun er í gangi á vefnum Change.org sem rúmlega 7500 hafa skrifað undir. Eftir að breska blaðið The Guardian fjallaði um blóðmerahald bættust 70 þúsund undirskriftir við á tveimur vikum.

„Við fengum rúmlega þrjú þúsund undirskriftir en eftir að greinin birtist í Guardian í Bretlandi voru komnar 70 þúsund undirskriftir. Áskorunin til íslenskra stjórnvalda um að banna blóðmerahald til framleiðslu á frjósemislyfjum kemur frá þýskumælandi löndum, Sviss, Þýskalandi og Austurríki. Við stefnum á að safna fleiri undirskriftum ásamt samstarfsaðilum okkar innan evrópskra efnahagssvæðisins,“ sagði York og bætti við:

„Við erum Íslandsvinir. Ég hef farið í frí til Íslands. Við biðlum til ykkar að reyna að koma í veg fyrir að orðstír landsins bíði hnekki. Þið eruð þjóð sem elskar hesta og blóðmerahald getur ekki verið hluti af ykkar framtíð.“

Sabrina Gurtner.

Hormónið er ekki nauðsynlegt

Belgísku dýraverndarsamtökin Eurogroup for Animals hafa ásamt 16 öðrum dýraverndarsamtökum lagt fram kvörtun til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna blóðmerahalds á Íslandi. Samtökin telja að blóðtaka úr fylfullum hryssum brjóti gegn reglum EES um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni. Sabrina sagði AWF/TSB hafa verið meðal þeirra samtaka sem lögðu fram kvörtunina. Að mati lögvitringa sé blóðmerahald ólöglegt samkvæmt reglugerð EES.

Sömuleiðis vitnar Sabrina í markmið framkvæmdastjórnar ESB í græna sáttmálanum. Sjötta áhersluatriði sáttmálans er Frá býli til matar (e. From farm to fork) þar sem lögð er meiri áhersla á vegan mataræði. Í skýrslu Evrópuþings um sérstakar aðgerðir í tengslum við Frá býli til matar er mælt með að stöðva innflutning og framleiðslu á PMSG. Sabrina segir ljóst að blóðmerahald stangist á við áhersluatriði ESB í Græna sáttmálanum.

„Þetta er ólöglegt því hormón úr blóði fylfullra hryssa er ekki nauðsynlegt til að auka frjósemi húsdýra. Það eru til önnur lyf á markaðnum með gerviefnum og sömuleiðis er hægt að auka frjósemi í svínum í réttu umhverfi með góðri lýsingu, réttu fóðri, góðu plássi og með því að hafa gylturnar á sama svæði á gangmálum (e. in heat),“ útskýrir Sabrina og bendir á svissneskir bændur hafi þegar ákveðið að hætta að nota hormónið eCG.

Allt að fimm póstar á dag

Ráðuneytið fær daglega þrjá til fimm tölvupósta frá einstaklingum að hvetja stjórnvöld að banna blóðmerahald.

„Þetta eru á bilinu þrír til fimm póstar á dag frá einstaklingum og allir eins orðaðir,“ segir Iðunn María Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá matvælaráðuneytinu, við Fréttablaðið.

Hvorki Iðunn né Berglind gerðu athugasemd við undirskriftalistann en lofuðu að koma honum áleiðis til ráðherra og greina henni frá fundinum.