Erla Bolla­dóttir fær að kalla til vitni í máli sínu gegn ís­lenska ríkinu eftir að Lands­réttur sneri við úr­skurði Héraðs­dóms Reykja­víkur frá því í janúar. Lands­réttur komst að niður­stöðu þann 11. mars síðast­liðinn en RÚV greindi fyrst frá málinu í dag.

Héraðs­dómur Reykja­víkur hafnaði kröfu Erlu um að rann­sóknar­lög­reglu­menn yrðu látnir bera vitni 18. janúar síðast­liðinn en Erla á­frýjaði úr­skurðinum í kjöl­farið.

Að því er kemur fram í úr­skurði Lands­réttar frá því fyrr í vikunni mát ætla að „vitnin gæru borið um at­vik málsins og yrði ekki talið fyrir fram ber­sýni­legt að vætti þeirra væri til­gangs­laus fyrir úr­slit þess,“ og því var fallist á kröfu Erlu.

Gætu upplýst nánar um málefni Klúbbmannana

Vitnin sem um ræðir eru annars vegar Valtýr Sigurðs­son og Haukur Guð­munds­son, sem fóru með rann­sókn á hvarfi Geir­finns í Kefla­vík og hins vegar Örn Höskulds­son, fyrr­verandi full­trúi saka­dómara í Reykja­vík og tveir fyrr­verandi rann­sóknar­lög­reglu­menn; Sigur­björn Víðir Eggerts­son og Eggert Bjarna­son.

Í máli sínu fer Erla fram á að niður­staða endur­upp­töku­nefndar sem synjaði henni um endur­upp­töku á hennar þætti í Guð­mundar- og Geir­finns­málum, verði felld úr gildi, en hún var dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir rangar sakar­giftir á hendur Sigurbirni Eiríkssyni, Magnúsi Leópoldssyni og öðrum svonefndum Klúbbmönnum.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu, greindi frá því í janúar að Valtýr og Haukur gætu upplýst hvað olli því að grunur um aðild að hvarfi Geirfinns var felldur á Magnús og Sigurbjörn á sínum tíma. Þá hafi rannsakendurnir Örn, Sigurbjörn Víðir og Eggert hafi átt í verulegum samskiptum við Erlu eftir að hún losnaði úr gæsluvarðhaldi í lok árs 1975 og í byrjun árs 1976 bæði á heimili hennar og einnig í yfirheyrslum fyrir lögreglu.

Í ljósi þess að klúbbmenn voru handteknir skömmu eftir umræddar heimsóknir þeirra og samtöl við Erlu skipti máli að upplýsa hvernig staðið var að þessum heimsóknum, hver tilgangur þeirra hafi verið og hvers vegna ekkert hafi verið bókað um þær.