„Indland og Ísland fyrir græna plánetu,“ er yfirskrift erindis forseta Indlands í Háskóla Íslands í dag. Um er að ræða fyrstu heimsókn forseta Indlands, Shri Ram Nath Kovind, til norræns ríkis.

Forsetinn er í stuttri opinberri heimsókn og með honum fylgir sendinefnd forseta og sérstök sendinefnd Indversk-íslensku viðskiptasamtakanna (IIBA). Viðskiptaviðræður eru efst á baugi í þessari heimsókn. Forsetinn mun einnig funda með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, á Bessastöðum í dag.

Enfar götulokanir vegna heimsóknarinnar

Engar fastar lokanir verða á götum vegna komu Indlandsforseta til landsins eins og var við heimsókn Mike Pence Í síðustu viku. Hann fær þó lögreglufylgd hvert sem hann fer, líkt og Angela Merkel og aðrir þjóðhöfðingjar sem heimsækja landið, með tilheyrandi truflunum á umferð.

Indlandsforseti ásamt rektor og Ólafi Ragnari Grímssyni í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink

Í neðstu stétt á Indlandi

Forsetaembættið á Indlandi hefur fyrst og fremst táknrænt hlutverk, líkt og á Íslandi. Forsetinn var kjörinn árið 2017 af indverska þinginu, en hann var áður ríkisstjóri í Bihar og þingmaður. Hann er lögfræðingur að mennt en hefur verið í stjórnmálum síðasta aldarfjórðung.

Kovind tilheyrir stétt dalíta, en stéttin er á neðsta þrepi hins forna indverska stéttakerfis og hefur haft minni réttindi en efri stéttir í gegnum tíðina.

Hægt er að fylgjast með erindi forsetans í beinni útsendingu hér að neðan: