Meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar hefur lagt til að skólahald í Kelduskóla Korpu verði lagt af, a.m.k. tímabundið, og nemendum boðin skólavist í Engjaskóla. Nemendum í Korpuskóla hefur fækkað mjög á síðustu árum, úr 140 árið 2012 í 59 á þessu skólaári. Hjallastefnan hefur lýst yfir áhuga á að taka yfir skólann.

„Börn í hverjum árgangi eru allt niður í fjögur talsins og það er ávísun á verri aðbúnað en við viljum bjóða okkar nemendum bæði náms- og félagslega,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. „Meginatriðið er að geta boðið nemendum meiri fjölbreytni í námi og ekki síður félagslega, þ.e. að börnin hafi gott val þegar kemur að vinasamböndum og félagslegum tengslum.“

Sævar Reykjalín, formaður foreldrafélags Kelduskóla, segir tillöguna reiðarslag. „Það er mjög sorglegt að þetta skuli vera niðurstaðan. Það er mikil skammsýni,“ segir Sævar. „Þetta er erfitt fyrir foreldra að heyra að skólanum verði lokað.“

Hann boðar aðgerðir foreldra í hverfinu til að fá meirihlutann til að skipta um skoðun. „Við munum láta í okkur heyra á næstu vikum og munum ekki gefast upp.“