„Þegar holl fæða er borin á borð andanna þá velja þær samt frekar brauðið, sem er ekkert gott fyrir þær. Fuglarnir eru ekki svo ólíkir okkur mannfólkinu að þessu leyti,“ segir Aron Alexander Þorvarðarson líffræðingur sem taldi meðal annars brauðgjafir á Tjörninni í sumar en slíkar gjafir voru vaktaðar sérstaklega í fyrsta sinn.

Aron segir að því miður séu brauðgjafir borgarbúa ekki að hverfa. „Það er um ein og hálf brauðgjöf á hverjum klukkutíma á góðviðrisdögum yfir sumarið. Franskbrauð er ekki gott fyrir fuglana en það hefur verið löng hefð meðal borgarbúa fyrir að gefa þeim brauð.

Þetta er frekar næringarsnauð fæða og brauðið þenst út í maganum á fuglunum sem gerir það að verkum að endurnar upplifa sig saddari en þær eru,“ segir hann.

Þótt hóflegar brauðgjafir séu ekki endilega skaðlegar fuglunum, þá fái Tjarnarfuglar of mikið af hvítu brauði. Mælir hann frekar með fersku grænmeti, rúsínum, fræjum og jafnvel ávöxtum.

„Hefðin er rík og það er erfitt að venja fólk og endur af brauðinu,“ segir Aron en minnisblað um vöktun á fuglalífi í Reykjavík í sumar sem Aron vann að var lagt fyrir á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur í síðustu viku. Hann segir að almennt sé fjölbreytt fuglalíf í borginni.

Við Tjörnina séu andfuglar áberandi, svo sem stokkendur, álftir, og gargendur, en nokkrum skrefum frá, í Vatnsmýrinni, eru vaðfuglar eins og heiðlóa og spói. „Í Skerjafirði eru svo skemmtilegar fjörur með fjölbreyttu fuglalífi, þar á meðal eru tildrur og lóuþrælar, hettumáfar og kríur.“