Erfitt er að mæla merki þess þegar nýjar opnanir verða á gos­sprungunni við Fagra­dals­fjall með þeim hætti að hægt verði að vara við þeim með fyrir­vara.

Síðustu vikuna hafa opnast nýir gígar á sprungunni á milli Geldinga­dala og þess gígs sem opnaðist annan í páskum. Nýju gígarnir hafa opnast fyrir­vara­laust, svo að segja, utan eins en greini­legt land­sig og jarð­hiti hafði þá mælst á sama svæði daginn áður.

Vísinda­ráð al­manna­varna fundaði í dag um stöðuna við gosið og var þar meðal annars farið yfir skjálfta­gögn og mælingar á af­lögun og það rætt sér­stak­lega hvort hægt yrði að sjá það með ein­hverjum fyrir­vara þegar ný gosop eru að myndast.

Niður­staðan var sú að það yrði afar erfitt því merkin eru lítil og erfitt að mæla þau þannig að hægt verði hægt að segja fyrir um nýjar opnanir með mikilli vissu.

Hraun renni brátt úr dölunum

Stefna hraun­flæðisins hefur breyst nokkuð á svæðinu vegna nýrra gosopa á sprungunni og bunkast nú upp hraun í suð­austur­hluta Geldinga­dala. Búist er við að hraunið fari brátt að renna úr skarðinu sem þar er og út úr dölunum.

Hraun­flæðið hefur verið til­tölu­lega stöðugt frá upp­hafi goss þó hægt sé að greina litlar sveiflur inn á milli. Í til­kynningu al­manna­varna segir að ekkert bendi til þess að það sjái fyrir endann á gosinu.