„Þetta vakti mikil við­brögð og á­stæðan fyrir því að þetta vakti mína at­hygli er að ég hef, í starfi mínu. hitt ansi marga ein­stak­linga sem voru í þessum sporum sem börn, að ná ekki upp á sviðið, og eiga erfiðar minningar frá skóla­göngunni“ segir Krist­björg Þóris­dóttir, sér­fræðingur í klínískri sál­fræði, um við­tal sem birt var fyrr í mánuðinum við móður barns sem var eitt ör­fárra nem­enda sem ekki fékk verð­laun á út­skrift.

Greinin vakti mikla at­hygli og segir Krist­björg það lík­lega tengjast því að margir myndi tengingu bæði við barnið og átt þessa reynslu sjálf, eða þau eigi barn sem hafi upp­lifað eitt­hvað svipað.

„Það er mikið í um­ræðunni aukin tíðni geð­raskana eins og kvíða og þung­lyndis og í þeirri um­ræðu þurfum við alltaf að hafa í huga hvort að það sé eitt­hvað í sam­fé­laginu okkar sem þarf að skoða og getur verið jarð­vegur fyrir þennan vanda,“ segir Krist­björg.

Erfitt að skilgreina hver er sigurvegari og fyrir hvað

Hún segir að al­mennt sé sam­fé­lagið þannig að við þurfum á fólki að halda með ó­líka hæfi­leika.

„Það er erfitt að skil­greina hjá börnum hver þeirra eru sigur­vegarar eða fyrir hvað. Við sjáum það í at­huga­semdum við fréttina að margir segja að þau hefðu aldrei verið þarna á sviðinu en eru í dag sigur­vegarar í sínu lífi. Það sem við þurfum að hug­leiða og um­ræðan núna er hvernig við ætlum að byggja upp skóla­kerfi sem skilar af sér fjöl­breyttum hópi ein­stak­linga sem hafa á­kveðna grunn­færni eins og lesa, skrifa og reikna, en líka réttu verk­færin og rétt hugar­far grósku og eld­móðs til að takast á við lífið á­samt því að þau þekki sína veik­leika og styrk­leika,“ segir Krist­björg.

Hún segir að í út­skriftar­athöfninni birtist úr­eld við­horf um að verð­launa fyrir ein­hverja af­markaða þætti eins og að fá A í ein­hverju fagi.

Að barnið náði að mæta í skólann getur líka verið sigur

„Það er flókið að skil­greina hvað á að verð­launa og fyrir hvað. Ég hef auð­vitað, eins og margir aðrir, hugsað mikið um það síðustu daga og kannski væri betra að há­tíðin væri sigur­há­tíð allra nem­enda þar sem hver og einn, með sínum kennara, skil­greini hvað sé sinn sigur,“ segir Krist­björg.

Hún segir að það geti verið hvað sem er. Það geti verið mikil færni í verk­legu fagi eða list eða hrein­lega að barn hafi átt erfitt heima fyrir og hafi komist út úr því eða getað sinnt náminu þrátt fyrir það.

„Að barnið náði að mæta í skólann getur líka verið sigur,“ segir Krist­björg.

Hún segir að þessi mæli­kvarði sé heldur engin trygging fyrir vel­gengni.

„Að ná gríðar­lega góðum árangri í bók­legum fögum í grunn­skóla er ekki endi­lega á­vísun á far­sæld í lífinu,“ segir Krist­björg.

Það þarf að skoða hvað á að verðlauna fyrir og hvort það þurfi að verðlauna.

Eins og að snúa við olíuskipi

Spurð hvað sé hægt að gera segir Krist­björg að það sé vanda­samt verk þegar um svona stórar sam­fé­lags­legar breytingar er að ræða.

„Ég segi stundum að svona sam­fé­lags­breytingar eru eins og að snúa við olíu­skipi. Breytingarnar eru þungar í fram­kvæmd en orð eru til alls fyrst,“ segir Krist­björg.

Hún segir að það sé vitað í sam­fé­laginu að hingað til hafi góðum árangri í bók­legum fögum verið hampað en til að efla sam­fé­lagið og tryggja fjöl­breyti­leika þá þurfi að stokka upp og endur­skil­greina hvað er árangur og sigur.

„Við þurfum að endur­skil­greina hvaða hæfi­leika við viljum laða fram. Þetta hefur hingað til verið eins­leitt,“ segir hún.

En hvaða á­hrif hefur þetta á börn sem eru að upp­lifa þetta núna?

„Frá því að við fæðumst byrjum við að skynja og skilja heiminn og mynda okkur skoðun á því hver við erum, hvernig aðrir eru og hvernig heimurinn er. Við erum að reyna að skilja hvaða pláss við eigum í þessum heimi og þegar við förum í gegnum skóla­kerfið mótast og eflast þessi við­horf,“ segir Krist­björg.

Þetta ögraði rétt­lætis­kennd fólks og fólki þótti þetta ekki sann­gjarnt

Tekur með mér viðhorf út í lífið um að vera ekki nógu góður

Hún segir að eitt af því sem gerist þegar fólk tekst á við erfið­leika eða skerðingar, eins og ef barn er með at­hyglis­brest eða dyslexíu, þá séu minni mögu­leikar að ná mark­miðunum sem hafa verið sett eða standast þær kröfur sem eru gerðar.

„Þá geturðu tekið með þér við­horf um að þú sért ekki nógu góður. Við vitum að það er of mikið af fólki sem hefur farið í gegnum skóla­kerfið og gengið illa og tekur með sér við­horf um að það sé ekki nógu gott og aðrir séu betri en þau. Svona við­horf í far­teskinu eru ekki hjálp­leg ef þú ætlar að ná árangri í lífinu,“ segir Krist­björg og bætir við að mark­miðið eigi að vera að koma í veg fyrir að fólk taki slík við­horf með sér úr skóla­kerfinu.

„Maður myndi óska þess að flestir fari úr skóla­kerfinu með trú á eigin getu og geti byggt ofan á það. En ef þú stendur á gólfinu og meiri­hluti nem­enda er uppi á sviði og er verð­launaður þá er verið að vökva slæm við­horf. Það getur valdið vand­ræðum í fram­haldinu í námi og í lífinu al­mennt,“ segir Krist­björg sem vonast til þess að hægt verði að koma í veg fyrir að fleiri börn taki slíkar minningar með sér úr skóla­kerfinu.

„Þetta ögraði rétt­lætis­kennd fólks og fólki þótti þetta ekki sann­gjarnt,“ segir Krist­björg sem minnir á að við vitum ekki alltaf hvað liggur að baki vel­gengni eða ó­sigrum fólks. Hvort það eigi erfitt heima eða lítið bak­land eða eitt­hvað slíkt.

Hún vonast til þess að hægt verði að ræða núna hvernig þessu verður sinnt í fram­haldinu og tekið verði til greina hvaða á­hrif þetta getur haft á sjálfs­mynd barna.

„Það er mikil­vægt að hver nemandi komi úr skóla­kerfinu og þekki sína veik­leika og styrk­leika og hafi grunn­færni til að takast á við lífið og vera sinn eigin sigur­vegari og það er það sem maður fagnar við út­skrift. Svo byggir maður sjálfs­traust ofan á það,“ segir Krist­björg að lokum.