Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir erfitt að segja til um hvers vegna svo virðist vera sem fleiri hópist nú saman og fylgi ekki leið­beiningum yfir­valda. Þetta kom fram í fyrir­spurnar­tíma á blaða­manna­fundi al­manna­varna.

Sagði Þór­ólfur að svo virðist vera sem að sumir í þjóð­fé­laginu hafi ekki farið að til­mælum um hópa­myndanir og veislu­höld um liðina helgi. Sagði hann ljóst að slíkt væri upp­spretta nýrra bylgja í far­aldrinum.

„Auð­vitað hefur maður á­hyggjur af þessum fjölda eins og sást á Lauga­veginum. Ég vona að þetta sé ekki vís­bending um að svona verði þetta á­fram fram að jólum,“ sagði Þór­ólfur og vísaði þar til glugga­tón­leika sem haldnir voru af skemmti­staðnum Prikinu um liðna helgi.

Að­spurður að því hvort að fleiri hittist nú í hópum vís­vitandi eða vegna þess að til­mæli stjórn­valda séu svo ó­mark­viss segist Þór­ólfur ekki vita hvers vegna fólk hlýði ekki. Þó sé ljóst að til­mælin hafi verið skýr.

„Það er erfitt að segja ná­kvæm­lega hvað gerir það að verkum,“ segir hann. „Til­mælin hafa verið mjög skýr. Ég veit ekki hvort það sé hægt að orða þetta skýrar. Við höfum beðið fólk um að gera sér grein fyrir því að far­aldurinn getur farið á skrið eftir eina viku ef fólk gætir ekki að sér,“ segir Þór­ólfur.

Faraldur úr böndunum hefði haft verri áhrif á andlega heilsu

Þá sagði Þór­ólfur ljóst að ef ekki hefði verið gripið til að­gerða gegn veirunni, hefði það haft ó­mæld á­hrif á and­lega heilsu hér­lendis. Unnur Anna Valdimars­dóttir, prófessor, tók undir með Þór­ólfi. Vísaði hún í nýja rann­sókn um and­lega heilsu þeirra sem smitast hafa af CO­VID.

Hún segir ekki sterkar vís­bendingar hér­lendis um að að­gerðir stjórn­valda hafi haft víð­tæk á­hrif á geð­heil­brigði landans al­mennt. „Það er ekki í taki við það þar sem far­aldurinn hefur farið alveg úr böndunum,“ sagði hún og vísaði meðal annars til Ítalíu og New York ríkis. Þar hefðu á­hrifin verið al­var­legri á and­lega heilsu.

„Spurningin er: Ef þessar að­gerðir hefðu ekki verið til staðar, hver hefði staðan verið þá? Ég hugsa að ef við skoðum niður­stöður annars staðar frá, þar sem far­aldurinn hafði farið úr böndunum, þá er það ekki mjög glæsi­leg mynd.“