Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að tölur um ný smit sýni fram á áframhaldandi uppsveiflu í kórónaveirufaraldrinum en að nú þurfi að fara varlega við að túlka þær tölur þar sem dregið hefur úr sýnatökum. Alls hafa 648 manns smitast en 60 manns smituðust á síðasta sólarhring.

„Á þessari stundu er erfitt að segja hvort við séum að stefna í verstu spá, eins og við höfum verið að tala um undanfarna daga, eða í bestu spá og ég held að það skýrist svolítið betur þegar líkanið verður uppfært núna í dag eða á morgun,“ sagði Þórólfur en búast má við nýju spálíkani á næstu dögum.

Um 8200 manns eru nú í sóttkví en að sögn Þórólfs voru 60 prósent þeirra sem smituðust síðastliðinn sólarhring nú þegar í sóttkví, sem hafi verið ánægjulegt. Sóttkvísaðgerðir nýtist þannig til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu faraldursins. Ellefu manns eru á Landspítala, þar af tveir á gjörgæslu, en enginn er í öndunarvél. Eitt dauðsfall af völdum veirunnar var staðfest í gær.

Aðgerðir skilað miklu

Að sögn Þórólfs hafa um þrjú prósent þeirra barna sem hafa komið í sýnatöku reynst jákvæð fyrir veirunni en sjaldgæft er að börn smituðust. Það gæti þó mögulega breyst. Þrjú börn undir tíu ára aldri af 350 barna úrtaki hafa greinst með veiruna á veirufræðideild Landspítala en ekkert barn hefur greinst með veiruna hjá Íslenskri erfðagreiningu af 433 sem hafa komið í sýnatöku.

Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, það er að greina snemma, beita sóttkví, hvetja fólk til að stunda góðar hreinlætisaðgerðir og virða fjarlægðarmörk, fara ekki inn í stóra hópa, og svo framvegis, hafi skilað miklum árangri. „Reiknilíkan háskólans sýnir áfram að meðaltals aukning á Íslandi á dag á hverja þúsund íbúa er enn sú minnsta í Evrópu og það styður okkur áfram í þeim aðgerðum sem við höfum verið að grípa til.“

Þórólfur sagðist hafa nokkrar áhyggjur af skorti á sýnatökupinnum en hann bindur vonir við að fleiri pinnar berist til landsins. Verið væri að skoða hvort slíkir pinnar frá Össur gætu nýst við sýnatökur en þó nokkur lager er til af þeim.