Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir það á­nægju­legt að heyra fréttir af bólu­efni Jans­sen en Lyfja­stofnun Evrópu, EMA, greindi frá því fyrr í vikunni að Jans­sen hafi sótt um skil­yrt markaðs­leyfi fyrir bólu­efnið. Ís­land hefur þegar tryggt sér skammta fyrir 235 þúsund ein­stak­linga af því bólu­efni.

„Ég gleðst yfir því að við fáum fleiri bólu­efni á markaðinn og þeirra bólu­efni virðist vera mjög virkt og gott bólu­efni eins og hin bólu­efnin, og auk þess virðist vera nóg að gefa að­eins einn skammt af því bólu­efni,“ sagði Þór­ólfur Guðna­son á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

Reiknað er með því að sér­fræðinga­nefnd EMA muni taka á­kvörðun um bólu­efnið í mars. Þór­ólfur segir að um sé að ræða heldur langan tíma og veltir fyrir sér af hverju það sé ekki hægt að flýta fyrir ferlinu. „En vafa­laust hafa menn sínar á­stæður fyrir því.“

Vill frekar nota dreifingaráætlun heldur en útreikninga

Samningur Ís­lands við Jans­sen var undir­ritaður í lok desember og líkt og áður segir er þar kveðið á um 235 þúsund skammta. Að sögn Þór­ólfs eru vonir bundnar við að það muni ekki taka meira en einn eða tvo mánuði að fá fyrstu skammtana en dreifingar­á­ætlun liggur ekki enn fyrir.

„Þó við séum með samninga við Jans­sen fyrir rúm­lega 230 þúsund manns, vitum við ekkert hvernig sú dreifingar­á­ætlun verður, hvað við fáum mikið af bólu­efni í byrjun og svo fram­vegis,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið um málið.

Þór­ólfur segir ljóst að með komu bólu­efnis Jans­sen verði hægt að bólu­setja fleiri á næstunni en að­spurður út í reikninga heil­brigðis­ráðu­neytisins, um að hægt verði að bólu­setja 190 þúsund manns fyrir lok júní, segist hann frekar vilja miða við dreifingar­á­ætlun, sem nær nú að­eins fram til lok mars.

„Ráðu­neytið vill reikna sig á­fram og það er bara allt í góðu lagi, þetta er bara mjög já­kvæð tala og menn eiga bara að gleðjast yfir því, en ég hefði frekar viljað nota bara dreifingar­á­ætlunina þar sem við sjáum bara hvað við fáum frekar en að hugsa svona langt fram í tímann,“ segir Þór­ólfur.

Óljóst með önnur bóluefni

Að­spurður um önnur bólu­efni sem Ís­land og Evrópu­sam­bandið hafa samið um, annars vegar frá Sanofi og hins vegar frá CureVac, segir hann enn ó­ljóst hve­nær þau munu koma. Saminga­gerð Ís­lands og Sanofi er ekki hafin en Ís­land hefur samið við CureVac um bólu­efni fyrir 90 þúsund ein­stak­linga.

„Þau eru enn þá í rann­sóknum og það eiga eftir að koma niður­stöður úr fasa tvö og fasa þrjú rann­sóknum, hve­nær það verður veit ég ekki. Það eru ein­hverjir mánuðir í það myndi ég halda,“ segir Þór­ólfur.

Hátt í 10 þúsund manns lokið bólusetningu

Eins og staðan er í dag hafa þrjú bólu­efni fengið skil­yrt markaðs­leyfi hér á landi, bólu­efni Pfizer, bólu­efni Moderna, og bólu­efni AstraZene­ca. Alls hafa 9.658 manns lokið bólu­setningu og er bólu­setning hafin hjá 5.537 ein­stak­lingum til við­bótar en mis­jafnt er eftir bólu­efnum hversu langur tími líður milli skammta.

Að sögn Þór­ólfs er verið að vinna í því að bólu­setja ein­stak­linga í fyrstu sex for­gangs­hópunum og er þar um að ræða rúm­lega 40 þúsund manns. Ljóst er að hægt verði að klára bólu­setningu fyrir þá hópa fyrir lok mars. „Þetta er flókið og þetta tekur lengri tíma en menn vilja, en svona er þetta bara,“ segir Þór­ólfur.

„Fyrir­komu­lagið og skipu­lagið er bara frá­bært. Heilsu­gæslan hefur staðið sig alveg gríðar­lega vel og Dis­ti­ca hefur staðið sig gríðar­lega vel að dreifa bólu­efninu, það er ekkert auð­velt að vera með þrjú bólu­efni sem öll þurfa mis­munandi hita­stig og mis­munandi með­höndlun og allt svo­leiðis, þannig að þetta er mjög mikil á­skorun en ég get ekki annað séð en að allir hafi bara staðið sig alveg frá­bær­lega.“