Lögreglan hefur vísbendingar um svartan markað með skotvopn á Íslandi en segir þó erfitt að meta nákvæmlega fjölda skotvopna sem eru í umferð.

„Það er náttúrulega svo erfitt að meta svarta markaðinn. Ef við skoðum bara haldlagðar tölur í vopnum þá erum við ekki að sjá einhverja aukningu þar. Þetta er alltaf nokkuð óformlegt mat á því hver markaðurinn er,“ segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greiningardeildar.

„En við erum með vísbendingar um að það sé ákveðinn svartur markaður í gangi en það er erfitt að meta það nákvæmlega.“

Ríkislögreglustjóri er með breytingar á skotvopnaeftirliti til skoðunar en slíkt eftirlit myndi einungis snúa að skráðum vopnum. Til þess að herða eftirlit með óskráðum vopnum þyrfti aðrar breytingar.

„Það væri í rauninni miklu frekar frumkvæðislöggæsla sem yrði endurskoðuð varðandi eftirlit með þessum svokallaða svarta markaði,“ segir Runólfur.

Aðspurður segir Runólfur breytingar á skotvopnaeftirliti ekki tilkomnar af því að eftirliti hafi verið ábótavant. „Það hefur verið skotvopnaeftirlit en við teljum að í ljósi þróunar undanfarinna missera að þá sé ástæða fyrir lögreglu að endurskoða það og það sé hugsanlega skynsamlegt að bæta í það. Ég myndi þó ekki segja að því hafi verið ábótavant,“ segir hann.