Elísabet Brynjarsdóttir, verkefnastýra og hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði, fagnar því að fyrstu smáhúsin fyrir heimilislausa séu komin á sinn stað en búist er við að fyrstu íbúarnir geti flutt inn í húsin í nóvember. Hún segir að um gífurlega mikilvægt úrræði sé að ræða og vill sjá fleiri sveitarfélög slást í hópinn.

„Það að einhver sé heimilislaus er ótrúlega mikið vandamál og það er frábært að Reykjavíkurborg sé að koma til móts við það vandamál og reyna að stemma stigu við það,“ segir Elísabet í samtali við Fréttablaðið en Frú Ragnheiður starfar eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar. „Meðal mikilvægustu inngripa sem hægt er að beita til að draga úr skaða er að koma í veg fyrir heimilisleysi.”

Fæstir geti ímyndað sér áhrif úrræðisins á líf fólks

Líkt og greint var frá í síðustu viku eru fimm smáhús fyrir heimilislaust fólk komin á sína staði á Gufunesi. Áætlað er að tuttugu hús af þessari tegund rísi víða á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum en húsin eru öruggt húsnæði fyrir einstaklinga með vímuefna- og geðvanda.

Með því verður húsnæðiskostum sem heimilislausum stendur til boða fjölgað en Reykjavíkurborg starfar samkvæmt þeirri hugmyndafræði að allir eigi rétt á húsnæði. Slíkt hefur verið notað víða erlendis og tekur borgin mið af reynslu þeirra. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gær að hún myndi ekki hætta fyrr en allir væru komnir með húsnæði.

Aðspurð um hvaða þýðingu úrræðið hefur fyrir heimilislausa einstaklinga segir Elísabet að það sé erfitt að koma því í orð. „Fæstir geta ímyndað sér þau áhrif sem þetta er að fara að hafa á líf fólks að fá úthlutað í þessi smáhús. Bara það öryggi að geta lokað að sér, öryggið að geta farið í sturtu þegar þú vilt, öryggið að geta átt sitt eigið svæði.“

Stefnt er á að tuttugu smáhús verði sett upp á sjö stöðum í Reykjavík á næstu árum en þau fyrstu eru nú komin upp á Gufunesi.
Mynd/Reykjavíkurborg

Húsnæðin flokkuð sem samfélagsþjónusta

Að sögn Elísabetar hefur baráttan fyrir smáhúsunum verið löng og ströng, ekki síst vegna þess hve erfitt hefur reynst að finna staðsetningu fyrir þau. „Það er ákveðið málefni fyrir sig bara hvernig er staðið að því, bæði af hálfu samfélagsins og nágrannanna og svo auðvitað af hálfu yfirvalda,“ segir Elísabet.

„Það sem við höfum séð að vandamálið sé, er það að þessi smáhús fyrir heimilislausa eru flokkuð sem samfélagsþjónusta og þegar eitthvað er flokkað sem samfélagsþjónusta þá þarf að tilkynna það sérstaklega hver mun búa þar í deiliskipulagstillögu,“ segir Elísabet en slíkt gefur fólki tækifæri til þess að bregðast við um hvort úrræðin eiga rétt á sér eða ekki.

Hún vísar til þess að í öðrum löndum, sem Reykjavík hefur tekið sér til fyrirmyndar, sé ekki tilgreint sérstaklega fyrir hvern húsnæðið sé. „Þar er það ekki flokkað niður hvaða fólk það er, því það getur líka, á ákveðinn hátt viðhaldið jaðarsetningu þessara hópa. Þar er þetta bara íbúðarhúsnæði og síðan er það bara persónulegt máls hvers og eins hvers konar stuðning sá einstaklingur þarf.“

Geta orðið ákveðið skotmark

Verði þessu breytt hér á landi léttir það undir með heimilislausu fólki þar sem þau eru ekki lengur ákveðið skotmark þegar þau síðan fá húsnæði en dæmi eru til staðar um að fólk sem nýtir sér íbúðarhúsnæði fyrir ákveðinn hóp fólks, til að mynda hælisleitendur, verði fyrir barðinu á hatursglæpum.

„Það er líka bara upp á skilning og mannúð og að það sé tekið vel á móti fólki í samfélaginu. Það þurfa kannski ekki allir að vita hver staðan þín sem færð að búa þarna er,“ segir Elísabet. „Þetta er bara hugsjónin að við eigum öll rétt á heimili og það er það sem við þurfum að halda áfram að vinna að.“

Hún ítrekar að velgengni úrræðisins standi og falli með skilningi nágranna en ef fólkið mætir fordómum í hverfi sínu gæti það reynst þeim erfitt. „Þó að fólk er heimilislaust þá er það heimilislaust í hverfunum okkar og viljum við ekki öll frekar að þau eigi heimili og að þeim gangi vel, að fá sínum grunnþörfum mætt?“

Undir samfélaginu komið að taka vel á móti fólkinu

Elísabet segir það alltaf vera jákvætt þegar reynt er að finna lausnir á stöðu heimilislausra en málinu sé hvergi nærri lokið. Hún hrósar borginni fyrir þeirra aðgerðir og segir ljóst að þau séu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að smáhúsin verði farsæl. „Það sem þarf auðvitað að koma á móti er samfélagslegur skilningur á fjölbreytileika samfélagsins.“

„Nú er það undir okkur komið sem samfélag að taka vel á móti þeim og láta þeim líða vel þegar þau eru að feta sig áfram eftir að hafa verið kannski verið í mörg ár á götunni og átt mörg áföll að baki. Það þarf að vera þolinmæði, kærleikur og skilningur gagnvart þeim.“

Hún segir að viðhorfsbreyting í samfélaginu sé næsta skref en því næst þurfi að hjálpa þeim hundruð manna sem þurfa á úrræðum að halda. „Ég get ekki sett það í orð eða komið því í skilning hjá fólki hvað þetta mun hafa mikil áhrif en þetta gerir það og það er til hins betra,“ segir Elísabet að lokum.

Elísabet Brynjarsdóttir er hjúkrunarfræðingur og verkefnastýra hjá Frú Ragnheiði.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari