Jóhann G. Gunnarsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar á Austurlandi, segir að ökumenn á rafbílum sem eigi leið um Egilsstaði í sumar gætu þurft að bíða lengi eftir því að fá hleðslu.

Í færslu á facebook segir Jóhannes vegna orkuskiptanna:

„Ef allir eiga að vera komnir á rafmagnsbíla eftir nokkur ár samkvæmt lögum þá þarf margt að breytast til að það gangi upp. Eins og staðan er í dag eru svo fáar hleðslustöðvar að þeir sem eru á ferðalagi hér á Egilsstöðum gætu þurft að bíða lengi eftir að koma bílnum í hleðslu.“

Þá bendir starfsmaður Umhverfisstofnunar á fleiri vandamál varðandi aukið rafmagn vegna orkuskiptanna.

„Það má hvorki setja upp vindmyllur eða virkja vatnsföll til að framleiða rafmagn finnst manni vera umræðan. Svo er það þetta með kolefnisjöfnunina, nú ætla menn hér að keppast við að gróðursetja tré og selja svo kolefnisjöfnunina til hæstbjóðenda sem væntanlega verða erlend stórfyrirtæki sem eru í mengandi iðnaði, hvernig eigum við þá að kolefnisjafna hér innanlands,“ spyr Jóhann, starfsmaður Ust sem hefur umsjá með hreindýraveiði.

Guðlaugur Þór Þórðarson lýsti í Fréttablaðinu í gær áhuga á að einkaaðilar gætu selt orku til rafbíla milliliðalaust án sérstaks orkusöluleyfis.