Formenn stjórnarflokkanna funduðu lengi í gær um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru viðræðurnar töluvert ólíkar síðustu viðræðum flokkanna, sem hófust í stjórnarkreppu eftir kosningarnar 2017.

Nú sé byggt á reynslu stjórnarsamstarfs undanfarinna fjögurra ára. Flokkarnir viti betur hvað skilji þá raunverulega að og í stað þess að hefja viðræður á mögulegum sameiginlegum flötum leggi formennirnir áherslu á að ná lendingu um erfiðu málin fyrst.

Þar er annars vegar um að ræða þau mál sem helst var ágreiningur um á síðasta kjörtímabili eins og orkumál og náttúruvernd og svo ólík áherslumál flokkanna fyrir kosningar, en þar er meðal annars um skattamál að ræða.

Sérfræðingar og embættismenn á fundum

Enn sem komið er taka ekki fleiri þátt í viðræðunum en formennirnir þrír; Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Viðræðurnar eru ekki komnar á það stig að málefnahópar þingmanna hafi verið settir á laggirnar en eitthvað er þó um gestakomur sérfræðinga og embættismanna á fundi þríeykisins.

Gert var hlé á fundi þeirra klukkan fjögur í gær vegna boðaðs þingflokksfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem formaðurinn, Bjarni Benediktsson, gerði grein fyrir stöðu viðræðnanna. Hann stoppaði þó stutt við.

Þingflokkurinn hélt fundi sínum áfram eftir að formaðurinn vék af fundi, mögulega til að setja nýjan liðsmann, Birgi Þórarinsson, inn í leyndardóma flokksins sem mætti til síns fyrsta fundar í nýjum flokki í gær.

Ekki var fundað hjá öðrum þingflokkum í gær en gert er ráð fyrir að bæði Vinstri græn og Framsókn fundi í dag.

Miklar líkur á áframhaldandi samstarfi

Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem Fréttablaðið ræddi við að loknum þingflokksfundi í gær voru nokkuð bjartsýnir á árangur í viðræðunum. Einn reynslumesti þingmaður flokksins sagðist telja að 70 prósenta líkur væru á áframhaldandi stjórnarsamstarfi.

Flestir virðast þó telja að viðræðurnar muni taka tíma og mögulega lengri tíma en gengur og gerist. Það vinni hins vegar með formönnunum hve gott traust sé á milli þeirra þriggja og hve vel þekktar brekkurnar í samstarfinu séu.

En á meðan formennirnir funda um málefnin dunda aðrir sér við ráðherrakapla og þar eru þingmenn og ráðherraefni ekki undanskilin.

Tveir nýir ráðherrar líklegir

Talið er víst að tveir nýir ráðherrar komi inn í stjórnina, vegna fjölgunar ráðuneyta og brotthvarfs Kristjáns Þórs Júlíussonar úr stjórnmálum. Í Framsóknarflokknum þykir víst að sitjandi ráðherrar haldi sætum sínum í ríkisstjórn þótt einhver stólaskipti kunni að verða.

Fái flokkurinn hins vegar fjögur ráðuneyti, sem líklegt er talið, eru skiptar skoðanir um hvort formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, eigi að fá þann stól eða Ingibjörg Isaksen, sem vann stórsigur í Norðausturkjördæmi og er fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Haldi Sjálfstæðisflokkurinn sínum ráðherrafjölda er sæti Kristjáns Þórs Júlíussonar laust. Flestir nefna nú Guðrúnu Hafsteinsdóttur, þingmann Suðurkjördæmis, sem líklegustu viðbót flokksins í næstu stjórn.