Hjúkrunar­fræðingurinn Elín Tryggva­dóttir segir að gær­dagurinn, föstu­dagurinn þrettándi, hafi verið erfiður dagur í sögu Land­spítalans og að nýtt „met“ hafi verið slegið þegar innlagnarstaða á 36 rúma deildarinnar hafi farið í 41. Hún segir að þrátt fyrir sögu­sagnir um full tungl og föstu­daginn þrettánda hafi engan sem þar starfar grunað að svo illa myndi fara í gær.

„Það þýðir að deild sem veltir um 100 skjól­stæðingum á sólar­hring var yfir­full af sjúk­lingum sem hefðu átt að liggja á legu­deildum og ekkert svig­rúm var fyrir starfs­fólk að taka á móti nýjum sem samt streymdu á spítalann bæði í einka­bílum sem sjúkra­bílum. Þetta þýðir á manna­máli að eina bráða­mót­taka suð­vestur­hornsins var ó­starf­hæf þennan dag. Spáið í því!,“ segir Elín í pistli sem birtur var á visi.is fyrr í dag.

Elín segir að fyrir að­eins tveimur vikum hafi verið örfá dæmi um inn­lagnar­staða deildarinnar hafi farið yfir 30, en að frá því hafi staðan verið önnur.

„Talan þrjá­tíuogeitt­hvað ullar í­trekað á okkur af sjúk­linga­skjá­borðinu. Spilin sem starfs­menn Land­spítala voru gefin þennan föstu­dag voru ömur­leg og ekkert annað en þrek­virki kom til greina til að leysa úr vandanum,“ segir Elín.

Fjölgun skjólstæðinga fylgir ekkert fjármagn

Hún ber daginn saman við dag annarra ríkis­starfs­manna, sem sinni störfum við tölur, sem hafi sama dag farið í ó­vissu­ferð á kostnað sinnar stofnunnar.

„Fólk sem vinnur með tölur verður að fá að hvílast og lyfta sér upp. Hlaða batteríin og tengjast vinnu­fé­lögum. Þessi sama stofnun hefur í­trekað skilað veru­legum rekstar­af­gangi síðustu ár. Á þessari stofnun er starf­semin alltaf eins, engar ó­væntar breytur, enginn ó­væntur kostnaður,“ segir Elín.

Hún segir að veru­leiki Land­spítalans sé allt annað. Þar verði að haga seglum eftir vindi því að „kostnaður stofnunarinnar sveiflast eins og trampo­lín í ís­lensku fár­viðri. Ís­lendingum fer fjölgandi. Ferða­mönnum og inn­flytj­endum líka. En þessari skjól­stæðinga­fjölgun fylgir ekkert fjár­magn.“

Hún segir að öldrun þjóðarinnar ætti að vera okkur marks um vel­ferð, en að á sama tíma sé ekki gert ráð fyrir því í neinum út­reikningum að fólk eldist.

„Hvernig getur það komið ráða­mönnum á ó­vart að fólk skuli eldast. Hefðu þeir skoðað tölur hinnar ríkis­stofnunarinnar, þessarar sem skilar alltaf rekstrar­af­gangi og fer í ó­vissu­ferðir, hefðu þeir séð í hvað stefndi. „Döhhh“ segir þjóðin, „Úpps“ segja ráða­menn. Birgjum brunninn þegar barnið er dottið ofan í. Byrjum að byggja þegar allir eru orðnir aldraðir og hundruðir hafa eytt ævi­kvöldinu á rán­dýrum og ó­per­sónu­legum legu­deildum í stað þess að fá að enda ævina í nota­legu um­hverfi hjúkrunar­heimila.“

Elín segir að boltinn sé hjá ríkinu nú þegar samningar hjúkrunarfræðinga eru lausir eftir gerðardóm.

Svipuð saga með aðra sjúk­linga­hópa

Elín segir að svipaða sögu sé að segja af öðrum sjúk­linga­hópum, eins og þeim sem glími við and­leg veikindi, mjaðma- eða hjarta­veikindi.

„Guð forði þér frá því að finna fyrir and­legri van­líðan utan opnunar­tíma Bráða­mót­töku geð­deildar. Gakktu um á ó­nýtri mjöðm svo mánuðum skiptir, þetta er þinn verkur, ekki minn. Hjarta­að­gerðin getur beðið…held ég, það eru sko engin pláss opin vegna skorts á hjúkrunar­fræðingum svo við tökum bara sénsinn. Hættið að kvarta. Við þurfum að spara, spara, spara.“

Elín segir stöðuna á sjúkra­húsinu sjaldan hafa verið verri og því fari hjúkrunar­fræðingum fækkandi sem sætti sig við að vinna við slíkar að­stæður. Hún segir að það ætti engan að furða. Til­raun spítalans til að halda í þau sem eftir eru hafi nú verið felldar niður.

„Og enn spyrja ráða­menn sig að því aug­ljósa. „Af hverju hverfa hjúkrunar­fræðingar til annarra starfa og af hverju koma þeir ekki aftur?“ segir Elín.

Hún veltir því síðan fram hvort endur­skoða þurfi fjár­mál ríkis­kassans og hvort fjár­mála­ráð­herra gæti „tekið hausinn upp­úr holunni“ og kynnt sér starfið á spítalanum.

Boltinn hjá ríkinu

Hún segir að hún vonist til þess, nú þegar samningar hjúkrunar­fræðinga eru lausir, að ríkið komi að samninga­borðinu með „al­vöru til­lögur að borðinu til að bæta hag hjúkrunar­fræðinga.“

Hún segir að það séu smá mögu­leikar fyrir sjúkra­húsið ef að hjúkrunar­fræðingar kæmu aftur til starfa.

„Nú er boltinn hjá ríkinu. Vonandi sparka þau ekki spítalanum út af vellinum.“

Hún segir að lokum að líkt og alla aðra daga, hafi „ofur­hetjur sjúkra­hússins“ reddað föstu­deginum þrettánda. Þau hafi verið heppin, en að það muni koma að því að þau verði það ekki.

„Við vorum heppin, að­flæði minnkaði og svig­rúm skapaðist. En eins og við vitum öll vex heppnin ekki á trjánum. Einn daginn verðum við ekki heppin og hvað gerum við þá?“