Í kvöld hafa margir átt í erfið­leikum með að greiða með greiðslu­kortum og hefur ör­tröð skapast víða á veitinga­stöðum í mið­borg Reykja­víkur þar sem fólk hefur ekki getað greitt fyrir máls­verð sinn. Sam­tímis hafa bið­raðir myndast við hrað­banka þar sem fólk tekur út reiðu­fé til að greiða með.

Frá þessu greinir mbl.is og segir þar að auk þess hafi ein­hverjir átt í erfið­leikum með að greiða er­lendar greiðslur. Haft er eftir greiðslu­þjónustu­fyrir­tækinu Valitor að unnið sé að því að kippa greiðslu­kerfinu aftur í liðinn. Þá liggur vefur Arion banka niðri.

Uppfært kl. 21:31

Jónína Ingvadóttir, upplýsingafulltrúi Valitor, segir í samtali við mbl að netárás hafi verið gerð á fyrirtækið sem leitt hefur af sér truflanir á greiðslukerfum. Ekki hafi verið ráðist á innri kerfi fyrirtækisins og gagnaöryggi sé tryggt.