Það eru erfiðir tímar hjá Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ein skýring fylgishruns í borginni er ósamstaða innan flokksins og hörmuleg kosningabarátta að mati fræðinga. Landsmálin og þá einkum Íslandsbankasalan virðast einnig hafa áhrif.

Könnun Prósents fyrir Fréttablaðið mældi í fyrradag að fylgi Sjálfstæðismanna væri aðeins 16,2 prósent í borginni. Niðurstaðan hefur vakið gríðarlega athygli, enda var tíðin sú að Sjálfstæðismenn fengu hreinan meirihluta áratugum saman.

Árið 1990 fékk flokkurinn 60,44 prósenta fylgi undir forystu Davíðs Oddssonar.

Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur í sveitarstjórnarkosningum, segir enga sérstaka ástæðu til að álykta að könnun Prósents sé ekki marktæk.

„Það er greinilegt að nú hriktir alvarlega í stoðum flokksins í Reykjavíkurborg, þessu höfuðvígi Sjálfstæðismanna til margra áratuga,“ segir Grétar Þór.

Hann segir stöðuna mjög fréttnæma, hvort sem fylgi flokksins verður samkvæmt mælingunni eða skríður jafnvel dálítið yfir 20 prósentin eins og gæti orðið ef ungir skila sér illa á kjörstað. Í öllu falli stefni í mikið tap frá síðustu kosningum.

Spurður hvað hann telji helst skýra fylgishrunið nefnir Grétar Þór andstöðu Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2018 við þéttingu byggðar, Borgarlínu og umhverfisvænar áherslur í samgöngum. Sagan sýni að flokkar sem hafi barist fyrir þessu hafi hljómgrunn meðal borgarbúa.

Þá segir hann að svo virðist sem landsmálin, einkum Íslandsbankasalan, skýri að einhverju leyti hrun fylgisins. Landsmálin hafi tilhneigingu til að hafa meiri áhrif í stærri sveitarfélögum.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir mælingar sýna að fylgistap Sjálfstæðisflokksins hafi byrjað í nóvember í borginni. Nú sé hægt að tala um hrun. Um skýringar segir hún að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi verið mjög klofinn.

Flokkurinn hafi verið lengi að koma sér saman um uppstillingaraðferð, hart hafi verið barist í prófkjöri og í ljós hafi komið áherslumunur manna á milli.

„Það eru ekki allir sem ganga í takt í hópnum og það smitar út frá sér,“ segir Stefanía.

Um kosningabaráttu Sjálfstæðismanna undanfarið er Stefanía ómyrk í máli:

„Kosningabarátta Sjálf­stæðis­flokks­ins er hörmuleg,“ segir hún og bætir við að þau framboð sem fá nú góða mælingu virðist leggja mikla hugsun í samfélagsmiðla.

Stefanía telur líkt og Grétar Þór að landsmálin skýri fylgistap Sjálfstæðismanna að einhverju marki í borginni.

Grétar Þór og Stefanía telja bæði að Samfylkingin mætti vel við una ef flokkurinn heldur fylgi sínu frá 2018, enda sé það mun meira en á landsvísu.

„Ef þetta verður niðurstaðan er um að ræða mikla traustsyfirlýsingu við Dag B. Eggertsson,“ segir Stefanía.

Bæði nefna að staðbundið traust til Pírata virðist mun meira í borginni en á landsvísu. Það yrði saga til næsta bæjar ef Píratar ná að skáka Sjálfstæðismönnum. Píratar mælast nú með 17,9 prósent.

Þá eru Stefanía og Grétar Þór sammála um að það séu miklar fréttir hve góða mælingu Framsóknarflokkurinn fær. Upptaktur þess hafi orðið í síðustu þingkosningum.

„En það eru erfiðir dagar fram undan hjá Hildi Björnsdóttur,“ segir Stefanía.