Í lok janúar síðastliðinn voru 10.541 einstaklingar skráðir á atvinnuleysisbótum hjá Vinnumálastofnun, 57 prósent þeirra voru karlar og 42 prósent konur.

Þetta kemur fram í svari Vinnumálastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Mestur fjöldi skráðra á atvinnuleysisbótum var á aldrinum 30 til 49 ára, eða 5.140 manns. Þar af voru 2.947 karlar og 2.193 konur.

Þar á eftir kom aldurshópurinn 18 til 29 ára, 2.923 voru án vinnu í þeim hópi og höfðu rétt á atvinnuleysisbótum, þar af voru 1.633 karlar og 1.290 konur.

Í aldurshópnum 50 ára og eldri voru 2.478 manns án vinnu og þar voru karlar einnig í meirihluta eða 1.438 á móti 1.040 konum.

Eldri fækkar í minna mæli

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun höfðu 698 manns verið á bótum í tvö ár eða lengur í lok janúar síðastliðinn.

Þá er fjöldi þeirra sem hafa fullnýtt bótarétt sinn breytilegur á hverjum tíma en síðustu misseri hafa um 80 til 100 atvinnuleitendur fullnýtt bótarétt sinn á mánuði.

Þegar fólk hefur fullnýtt bótarétt sinn hjá Vinnumálastofnun færist framfærsluskyldan frá Atvinnuleysistryggingasjóði til sveitarfélags viðkomandi.

Í svari stofnunarinnar kemur einnig fram að svo virðist sem erfiðara sé fyrir eldri aldurshópinn að fá atvinnu en þá yngri.

Eldri einstaklingum hafi fækkað í minna mæli á atvinnuleysisskrá síðustu misserin.

Í fréttum RÚV í gær kom fram að lausum störfum sem auglýst eru á netinu fari fjölgandi.

Samkvæmt atvinnuleitarmiðlinum Alfreð eru nú 1.010 laus störf til umsóknar í boði þar og hafa þau aldrei verið fleiri.