Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar og bæjarfulltrúi minnihlutans á Akureyri, segist spennt fyrir því að vera í minnihluta og að svekkelsi kosninganna séu að renna af sér.

Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar Akureyrar fer fram í Ráðhúsinu síðdegis í dag.

Hilda Jana birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún segir það kunna að hljóma undarlega, auðvitað hefði hún mun frekar kosið að hafa fengið betri kosningu og vera í meirihluta en að annar veruleiki blasi nú við.

„Þá er það mér eðlislægt að horfa á björtu hliðarnar, því það er einfaldlega svo miklu skemmtilegra,“ segir Hilda Jana meðal annars og bætir við að hún hlakki mikið til að þurfa ekki lengur að semja um mál innan meirihluta. Hún geti haft sína skoðun og komið henni á framfæri án þess að vera öðrum háð.

„Þegar ég byrjaði í stjórnmálum lofaði ég sjálfri mér að eiga aðeins einn dómara og það væri mín eigin spegilmynd. Það verður þó að viðurkennast að það hefur verið mun erfiðara en ég átti von á að upplifa öskur, baktal, niðurlægingu og ósannindi.

Ég skal alveg viðurkenna að stundum hef ég bognað, en ég hef þó aldrei nokkru sinni brotnað. Ég hef líka upplifað mikið þakklæti, hrós og ómetanlegan stuðning sem hvetur mig svo sannarlega áfram,“ segir Hilda Jana og heldur áfram: „Spegilmyndin mín er mjög stolt af mér, ég er sterkari og staðfastari en nokkru sinni áður, ég veit hvað ég hef gert og fyrir hvað ég stend.“

Hilda Jana segist full tilhlökkunar að vinna vel fyrir Akureyrarbæ næstu fjögur árin.