„Það er mikill halli á ríkissjóði, átta prósent af landsframleiðslu sem er svipað og var hér 2009 og 2010. Hallinn verður ekki minni á þessu ári vegna kostnaðar við aðgerðir sem hefur verið farið í vegna Covid,“ segir doktor Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík.

Katrín var í viðtali við Markaðinn á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi.

„Það var ennþá afgangur 2018 en það snerist í halla 2019 og afgangurinn hafði farið minnkandi og það var farið að hægjast á hagvexti og atvinnuleysi fór hækkandi áður en Covid skall á, þannig að við fórum í heldur verri átt. Og nú verðum við að byrja alveg frá grunni,“ sagði Katrín.

Að sögn Katrínar er hins vegar spurning hvernig farið verði í að minnka hallann til að ná aftur jafnvægi, því nú sé mikið ákall eftir aukinni heilbrigðisþjónustu. Það þýði meiri útgjöld.

Katrín segir varhugavert að skera hallann niður of mikið.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Það er varhugavert að byrja að skera niður hallann mjög mikið, enda engin þörf á því. Kostnaður við okkar skuldir hefur lækkað mjög mikið síðustu árin þannig að ég myndi segja að það ætti að setja einhverja skynsamlega áætlun um hvernig þú ætlar að bæta við heilbrigðisþjónustu og síðan að finna góða leið til að klára þessar aðgerðir sem eru í gangi vegna Covid og komast svo á lygnan sjó þótt það kosti einhvern hallarekstur á næstu árum,“ sagði Katrín í Markaðnum.

Klassískur vítahringur

„Erfiðu ákvarðanirnar koma núna. Stór hluti af halla þessa árs og síðasta kom til sjálfkrafa því hagkerfið var á ís, það var ekki ákvörðun að leyfa halla að myndast. Þetta var algjörlega óhjákvæmilegt,“ segir Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar, um þá stöðu sem ný ríkisstjórn standi frammi fyrir í efnahagsmálum.

Kristrún segir lykilatriði að koma böndum á húsnæðismarkaðinn.

„Heilbrigðismálin eru klassískt dæmi um mikilvægi þess að hafa einhverja sýn fyrir samfélagið og síðasta kjörtímabil sýndi svart á hvítu hversu ósamstíga ríkisstjórnin er þegar kemur að stóru myndinni þó að hægt sé að halda daglegum verkefnum gangandi,“ segir Kristrún.

Hagfræðideild Landsbankans spáir nú 5,1 prósents hagvexti hér á landi á þessu ári. Samkvæmt spánni mun þrálát verðbólga knýja á um töluverða hækkun stýrivaxta. Það bitnar meðal annars á þeim sem eru skuldsettir vegna húsnæðis.

„Þá er lykilatriði að koma böndum á húsnæðismarkaðinn,“ heldur Kristrún áfram. „Ríkisstjórnin hefur úthýst ábyrgð á markaðnum til Seðlabankans og bankakerfisins og leyst aðgengisvanda fólks að íbúðamarkaðnum með því að ýta undir aukna skuldsetningu. Við erum að detta inn í klassískan vítahring þar sem ódýrt fjármagn þrýstir upp íbúðaverði, sem svo þrýstir upp launakröfum, verðlagi og svo áfram húsnæðisverði.“