Rúmlega þrjár og hálf milljón Úkraínubúa hafa flúið land frá upphafi innrásar Rússlands inn í landið. Sigríður Björk situr í aðgerðarstjórn Rauða krossins vegna stríðsins þar sem hún samræmir aðgerðir tengdum sálrænum stuðningi. Hún segir aðgerðirnar vera risastórar og aðstæður erfiðar.
Sigríður Björk Þormar er ein af fimm sendifulltrúum frá Rauða krossinum á Íslandi sem fóru á dögunum til Úkraínu eða landanna í kringum Úkraínu að rétta fram hjálparhönd vegna stríðsins.
Hún er sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur sem hefur áður starfað sem leiðbeinandi í sálrænum stuðningi meðal annars í Malaví, Úganda, Simbabve, Indónesíu og víða um Evrópu.
Óvenju mörg lönd og landsfélög Rauða krossins taka þátt í aðgerðum vegna stríðsins í Úkraínu og mikil vinna fólgin í því að samræma aðgerðir. „Mitt hlutverk er að samhæfa aðgerðir sem snúa að geðheilbrigðismálum og sálrænum stuðningi,“ segir Sigríður.
„Að tryggja það að fólkið sem er á flótta fái þá aðstoð sem það þarf hvað varðar geðheilbrigðismál og sálrænan stuðning,“ segir hún.
Landsfélög Rauða krossins í Úkraínu, Rússlandi, Póllandi, Ungverjalandi, Rúmeníu, Moldóvu, Slóvakíu og Hvíta Rússlandi taka þátt í aðgerðunum. „Þannig að þar eru náttúrulega allskonar ólík markmið og sýn þannig að þetta er svona mikil diplómasía,“ segir Sigríður.
Löndin eru með misgóð úrræði og mismarga sjálfboðaliða og stundum hefur þurft að byrja á því að byggja upp og styðja við úrræði í móttökulöndum. „Þetta eru risastórar aðgerðir,“ segir Sigríður. „Ég er hérna með mjög vönu fólki og fólk viðurkennir að þetta eru frekar erfiðar aðstæður, sem það gerir nú ekkert alltaf.“
Veita fólki stuðning og upplýsingar
Þegar að Fréttablaðið náði tali af Sigríði beið hún eftir fari yfir landamærin frá Ungverjalandi til Uzhhorod í Úkraínu, rétt við landamærin. „Það eru Rauða kross vinnubúðir sem eru settar upp þar og við erum að fara í ferð til að meta aðstæður,“ segir Sigríður.
Sigríður þarf að vera í Búdapest reglulega í aðgerðarstjórn en þess á milli fer hún að landamærum í mismunandi löndum og metur aðstæður. Hún verður í Úkraínu í tvo daga og fer svo til Slóvakíu, þaðan til Búdapest og áfram til Moldóvíu og svo fram eftir götunum.
Á landamærunum eru móttökustöðvar þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins taka á móti fólki og styður við það. Stundum þarf aðstoð með praktíska hluti, segir Sigríður, en í öðrum tilfellum snýst stuðningurinn aðallega út á að sýna fólki að það sé einhver til staðar fyrir það.

Í móttökustöðvunum eru sérútbúin svæði fyrir börn þar sem þjálfaðir sjálfboðaliðar taka á móti börnum og gera eitthvað skemmtilegt með þeim. Þetta er gert bæði til að létta undir með foreldrum og leyfa börnum að skemmta sér aðeins þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
„Svo erum við líka að tryggja að fólk hafi þær upplýsingar sem það þarf, erum að útbúa svona upplýsingaefni sem fólk getur fengið í hendurnar þegar það kemur,“ segir Sigríður. „Hvar það getur leitað sér heilbrigðisaðstoðar og stuðning og annara úrræða sem landið býr upp á.“
Ringulreið í upphafi
Þegar innrásin hófst var fyrst um sinn nokkur ringulreið, að sögn Sigríðar. „Allt í einu þarf að grípa fleiri tugi þúsunda manns á nokkrum dögum,“ segir hún. Öflugir sjálfboðaliðar hafi þó staðið vaktina sleitulaust frá upphafi.
„Sérstaklega í Póllandi,“ segir Sigríður. „Þetta er alveg ótrúlegt, það eru þarna um þrjú hundruð læknar og sjúkraliðar sem hafa verið að vinna sem sjálfboðaliðar og þau eru að vinna á kannski tólf tíma vöktum og fara svo á tólf tíma vakt í vinnuna.“
Langflestir sem flýja stríðið í Úkraínu koma til Póllands. Samkvæmt Flóttamannstofnun Sameinuðu þjóðanna hafa rúmlega tvær milljónir flóttamanna farið yfir landamærin til Póllands. Heppilega eru öflug úrræði í boði í Póllandi að sögn Sigríðar.

Á móttökustöðvum í Póllandi eru alls staðar læknar og hjúkrunarfræðingar tilbúin að aðstoða veikt fólk, endurnýja lyf og koma fólki á spítala ef þess þarf.
Sigríður segir mikla vinnu hafa átt sér stað í upphafi við að búa til leiðir fyrir fólk til að flýja land og leiðir til að dreifa hjálpargögnum, meðal annars. Þegar öll sú vinna er afstaðin gengur vinnan hraðar fyrir sig.
„Það þarf að skoða öryggisatriði á leiðinni og þetta er rosalega mikil vinna sem fer fram í upphafi að finna út hvernig hægt er að dreifa gögnum, hvaðan þau ættu að koma, hverjir ættu að flytja þau, bara allt þetta,“ segir Sigríður. „Hvaða flugleiðir eru opnar eða hvaða landleiðir eða sjóleiðir.“
Sumir illa búnir og í erfiðu ástandi
Að sögn Sigríðar eru um tuttugu prósent þeirra sem flýja Úkraínu fótgangandi. „Eru búin að labba mörg hundruð kílómetra og margir orðnir mjög fótasárir og rosa lúnir og aumir og ekkert allir endilega vel skóaðir,“ segir Sigríður. „Og svo er fólk að bera dótið sitt og er margt orðið rosa þreytt.“
Fólk getur verið í alls konar ástandi við landamærin, sum eru til að mynda með sjúkdóma sem hafa jafnvel ekki verið meðhöndluð í einhvern tíma. Fólk hefur upplifað erfiða tíma sem margir ráða ekki vel við og þarf þá að fá utanaðkomandi stuðning.
Sigríður telur að um sextíu þúsund manns sem voru á geðsjúkrahúsum í Úkraínu hafi lagst á flótta og meira og meira beri á fólki með undirliggjandi sjúkdóma sem hafa versnað, bæði vegna álags og því það hefur ekki þau lyf sem það þarf.
„Þetta er ofsalega mikið álag, fólk kemur þarna inn í hrúgum og margir í svona erfiðu ástandi,“ segir Sigríður. „Maður verður svo stoltur að vinna fyrir svona mannúðarsamtök eins og Rauða krossinn á svona stundum því það er svo frábært að sjá hvernig allir vinna saman eins og smurð vél.“
„Rauði krossinn er alls staðar, þetta er smá svona eins og Coca Cola, maður finnur Rauða krossinn alls staðar og það er alltaf eins og þú sért að hitta vini þína þó þú hafir aldrei séð þetta fólk áður,“ segir Sigríður. „Allir til í að grípa til sinna úrræða og gera allt sem hægt er að gera til að reyna að auðvelda starfið. Þetta er bara ótrúlegt.“
Auk þess að bjóða fram beina aðstoð hefur Rauði krossinn staðið að söfnun vegna stríðsins í Úkraínu. Rúmlega hundrað milljónir hafa nú safnast til styrktar hjálparstarfinu. Hafi fólk áhuga á að styrkja störf Rauða krossins í Úkraínu má leggja þeim lið á vefsíðu Rauða krossins.
