Gullleitarfyrirtækið Iceland Resources hefur lagt fram gögn til Mosfellsbæjar um rannsóknarboranir í Þormóðsdal. Arnar Jónsson, forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar bæjarins, segir að nú verði kannað hvort framkvæmdin teljist meiriháttar og kalli á framkvæmdaleyfi.

Mosfellsbær hefur lagst gegn gullleit á svæðinu og í aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir byggingum, vegum eða öðrum mannvirkjum í tengslum við námavinnslu. Bærinn synjaði Iceland Resources um framkvæmdaleyfi árið 2017 og var það mál tekið fyrir hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Fleiri mál hafa ratað inn á borð nefndarinnar vegna verkefna félagsins en landeigendur í Vopnafirði og á Tröllaskaga hafa einnig kært útgefin leyfi Orkustofnunar. Gullleit fylgir oft jarðrask og hætta á að vatnsból spillist, en samkvæmt lögum geta rannsóknarleyfishafar farið inn á landareignir fólks, enda á ríkið það sem finnst í jörðu.

Samskipti félagsins við Mosfellsbæ hafa gengið brösuglega, en í fundargerð gerir skipulagsnefnd bæjarins alvarlegar athugasemdir við framgöngu og röksemdafærslu Iceland Resources ehf. í samskiptum sínum við sveitarfélagið.“ Arnar segir bæinn ítrekað hafa óskað eftir frekari gögnum frá félaginu. Eigandi þess er Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, sem á langa sögu gjaldþrota félaga á ýmsum kennitölum.