Viðbúið er að margir verði lengi á leiðinni í vinnuna þennan morguninn en snjóþekja eða hálkublettir eru á flestum stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins.
Óvissustig er á nokkrum vegum á suðvesturhorninu og gæti þurft að loka vegunum um Mosfellsheiði, Kjalarnes, Hellisheiði og Þrengsli með stuttum fyrirvara, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Gular viðvaranir eru í gildi um allt land að höfuðborgarsvæðinu undanskildu, en varað er við hvassviðri og slyddu eða snjókomu með erfiðum akstursskilyrðum.
Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands er útlit fyrir austan og suðaustan hvassviðri eða storm á landinu í dag.
„Það verður úrkoma um allt land og víða á formi slyddu eða snjókomu og hiti kringum frostmark. Sunnan- og suðvestanlands fer úrkoman yfir í rigningu á láglendi þegar líður á morguninn og hlýnar á þeim slóðum. Það lægir síðan um tíma síðdegis á sunnanverðu landinu, en snýst síðan í allhvassa suðvestanátt með skúrum eða éljum. Heilt yfir má þó segja að það dragi úr vindi og úrkomu á landinu í kvöld og nótt og víða skaplegt veður í fyrramálið. Það stendur þó ekki lengi, því eftir hádegi á morgun gengur í suðaustan og sunnan hvassviðri eða storm með rigningu og hlýindum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.