COVID-19 faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir leggjast þungt á ungmenni og er ótti meðal fagfólks að þau geti einangrast félagslega.

„Við höfum hvað mestar áhyggjur af unglingunum sem eru í fyrsta bekk í framhaldsskóla. Þeir eru ekki bara kvíðni vegna námsins, nú hefur bæst við kvíði vegna framtíðarinnar og kvíði um að einangrast félagslega,“ segir Berglind Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Foreldrahúss. „Þau eru að skipta um skóla, missa þá tengsl úr grunnskólanum og geta ekki skapað ný tengsl vegna faraldursins. Það er erfitt að sinna félagsstörfum og áhugamálum. Þetta er mjög viðkvæmur hópur.“

Vara við langtímaafleiðingum

Fram kom í máli Steinunnar Gestsdóttur, prófessors í sálfræði, á vinnufundi heilbrigðisráðherra nýverið að ástæða sé til að óttast um langtíma afleiðingar álags vegna sóttvarnaraðgerða á börn og ungmenni. Álagið leggst þyngra á ungmenni en fullorðna, þá sé ástæða til að hafa áhyggjur af tengslamyndun þeirra.

Berglind tekur undir þetta. Hefur hún áhyggjur af brottfalli hjá þessum hópi sem og atvinnuleysi. Þá hefur hún orðið vör við aukningu í að ungmenni upplifi tilgangsleysi og depurð, við það bætist heilsukvíði í sumum tilfellum. „Þessi atriði geta aukið kvíða fyrir framtíðinni, þá er hætta á að þau loki sig af eða fari í hina áttina og finni sér hóp sem hundsar allar áhyggjur.“

Nýverið fékk Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 15 milljóna króna styrk frá ríkinu til að sinna auknum forvörnum og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra. Þá sýnir nýleg rannsókn að íslensk ungmenni upplifi frekar ofbeldi en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum.

Berglind Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Foreldrahúss

Berglind segir að hún hafi svo sannarlega orðið vör við þessa þróun. „Ég get ekki rætt einstök dæmi en það eru ungmenni sem eru í ofbeldishópum sem stunda fíkniefnaneyslu. Þetta eru þá hópar sem beinlínis leita uppi slagsmál. Við finnum fyrir meira ofbeldi nú en áður, það er meiri grimmd. Þau eru að lemja hvort annað með verkfærum einungis til að fá útrás.“

Foreldrahús þurfti að loka í tvö mánuði í vor vegna faraldursins. „Okkar viðkvæmasti hópur kom mjög illa út úr því. Við ætlum að reyna að tryggja að það þurfi ekki að koma til þess aftur,“ segir Berglind. „Það hefur ekki verið nein fækkun á komum til okkar eftir að við opnuðum, þeim hefur fjölgað ef eitthvað er.“

Merkin þau sömu og áður

Merkin sem foreldrar þurfa að fylgjast með breytast ekki. „Það eru nýir vinir, óútskýranleg þreyta. Hirðuleysi varðandi skólann og sjálfa sig. Erfið samskipti við foreldra, og þau fara ekki eftir fyrirmælum. Flakk á milli hverfa og þau hirða ekki um útivistareglur, eða matartíma,“ segir Berglind. „Það er algeng saga að unglingurinn sefur fram eftir í stað þess að sinna fjarnáminu, ef foreldrar eru í vinnu þá reynist erfitt að halda utanum unglingana svo þeir stundi námið almennilega.“

Berglind biðlar til foreldra sem þekkja einkennin að hika ekki við að hafa samband. „Það er svo mikilvægt að fólk leiti sér aðstoðar sem fyrst. Foreldrahús er lágþröskuldaúrræði, það þarf ekki að fá tilvísun hingað, það er stuttur biðtími hjá okkur,“ segir Berglind. „Fólk er oft feimið við það eða heldur að það sé erfitt að leita sér aðstoðar, en þá er alltaf hætta á að vandinn aukist. Þessi veira hverfur ekkert strax, við erum komin inn í nýja tíma og þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt.“