Eldislax sem hefur sloppið hefur orsakað stórar breytingar í fjórðungi laxastofna Noregs, segir norska náttúrufræðistofnunin, NINA, um nýjustu niðurstöður sínar varðandi ástand villtra laxastofna í Noregi.

Fram kemur í kynningu NINA á nýju skýrslunni að í Noregi séu skilgreindir 239 aðskildir laxastofnar. NINA hafi unnið skýrsluna í samstarfi við hafrannsóknastofnun Noregs og byggi hana á erfðagreiningum á yfir 50 þúsund veiddum löxum. Þessum stofnunum hafi verið falið af loftslags- og umhverfisráðuneytinu, að leggja sameiginlegt mat á laxastofnana með tilliti til erfðabreytinga.

Laxastofnunum 239 var raðað í fjóra flokka eftir því hversu mikil erfðablöndunin við eldisfisk er. Í fyrsta flokki þar sem engin erfðablöndun fannst eru 80 stofnar, eða 33,5 prósent allra stofnanna.

Víða um Noreg eru erfðabreytingar á villtum laxastofnum
Mynd/Fréttablaðið

Engin breyting er sögð hafa orðið í þeim flokki frá því á árinu 2015. Hins vegar syrtir í álinn varðandi hina flokkana, því nú hafa fleiri stofnar færst úr öðrum flokki yfir í þriðja og fjórða flokk þar sem erfðablöndunin er sögð vera meiri.

„Í einni af stærstu laxveiðiánum, Namsen, hafa erfðabreytingar nú verið staðfestar, en áður voru aðeins vísbendingar um slíkt,“ segir á heimasíðu NINA. Namsen er eitt 53 vatnsfalla í Noregi sem njóta sérstakrar verndar frá inngripi manna sem þjóðarlaxveiðiár. Í aðeins 15 af þessum ám hafa engar erfðabreytingar á laxi fundist. Í öðrum 15 ám eru vísbendingar um nokkrar breytingar. Í 23 af þessum sérvernduðu ám eru staðfestar nokkrar eða miklar erfðabreytingar á laxinum

Nánar um skiptinguna í áðurnefnda flokka, sem gefnir eru litakóðarnir grænn, gulur, appelsínugulur og rauður, segir að nú séu 68 laxastofnar í rauða flokknum sem telur þá stofna þar sem mikil erfðablöndun hefur verið staðfest.

„Villtir laxastofnar sem orðið hafa fyrir erfðabreytingum frá eldislaxi sem hefur sloppið, framleiða minna en stofnar sem ekki hafa orðið fyrir áhrifum. Þeir framleiða færri gönguseiði og hafa hærri dánartíðni í sjó,“ segir NINA um þýðingu þessarar erfðablöndunar.

„Erfðabreyttur, villtur lax sýnir vissar breytingar á mikilvægum eiginleikum eins og vaxtarhraða, aldri við göngu til sjávar, kynþroska og göngumynstur. Þetta eru breytingar sem taldar eru veikja aðlögun laxins að náttúrunni,“ undirstrikar norska náttúrufræðistofnunin.

Eldislax hefur blandast stofni Namsenárinnar
fréttablaðið/getty