Morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi var þaulskipulagt og villimannslegt. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í gær. Erdogan krafðist þess jafnframt að upplýst yrði um staðsetningu líkamsleifa Khashoggis og það hver fyrirskipaði aðgerðina.

Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstofu Sádi-Araba í Istanbúl í upphafi mánaðar. Sádi-Arabar neituðu því í upphafi að vita nokkuð um málið en eftir að rassíur voru gerðar á skrifstofunni og hljóðupptökum var lekið til fjölmiðla, þar sem fram kom að Khashoggi hefði verið sundurlimaður, gáfu Sádi-Arabar út yfirlýsingu sem í sagði að blaðamaðurinn hefði látist í slagsmálum við á annan tug Sádi-Araba.

Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, sagði á þriðjudag að um mistök hefði verið að ræða og að ríkisstjórnin myndi refsa þeim sem stóðu að verknaðinum. Hins vegar hefur verið greint frá því að Saud al-Qahtani, einn æðsti ráðgjafi krónprinsins Mohammeds bin Salman, hafi haft umsjón með morðinu í gegnum Skype og stangast skýringar Jubeirs á við þær upplýsingar.

En aftur að Erdogan. Forsetinn fór í gær fram á að réttarhöld yfir þeim átján sem handteknir hafa verið í Sádi-Arabíu færu fram í Tyrklandi. Hann væri að auki sannfærður um að Salman konungur myndi sýna samstarfsvilja.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í gær að morðinu yrði svarað en útskýrði orðin ekki nánar. Bandaríkin eiga gott samband við Sádi-Arabíu og hafa átt hundraða milljarða viðskipti með vopn. Ríkisstjórn Donalds Trump forseta hefur verið gagnrýnd fyrir linkind í máli Khashoggis.