Nokkrir kaup­menn á Lauga­veginum í mið­bæ Reykja­víkur hafa byrgt fyrir glugga sína með svörtum rusla­pokum og komið þar fyrir skila­boðum, þar sem götu­lokunum er harð­lega mót­mælt. Hall­dór Berg­dal Baldurs­son, eig­andi Sölu­turnsins Vitans, er einn þeirra sem búið hefur svo um sinn búðar­glugga.

Á skiltinu sem fest hefur verið upp í Vitanum stendur: „Er þetta fram­tíðin? Er þetta það sem við viljum?“ Sam­bæri­leg skila­boð má sjá í öðrum búðar­gluggum, líkt og: „Lokuð gata. Engin verslun?“

„Þetta er ein­mitt spurningin sem við vörpum fram í til­efni af þessari hegðun borgar­stjórnarinnar, við lokun á götunni,“ segir Hall­dór í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann hefur staðið í rekstri á Vitanum síðustu tólf árin og Vitinn verið á Lauga­vegi í meira en fjöru­tíu ár.

„Það eru ansi margir sem ekki hefur verið hlustað á í því máli. Bæði við­skipta­vinir og aðrir. Við höfum sjálf staðið að form­legri skoðana­könnun á því hvað fólki finnst um þetta sem kemur inn sem við­skipta­vinir og fólk er bara stór­hissa á þessari stefnu,“ segir Hall­dór.

„Fólk sem að er vant götunni, það fer var­lega um. Það þurfa svo margir að komast um, sem eru hreyfi­hamlaðir eða eiga erfitt með að komast upp,“ segir Hall­dór. Hann segir sig upp­lifa götu­lokunina á mjög nei­kvæðan hátt.

Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink

Segir Lauga­veginn eins og villta vestrið

„Það er synd að það sé ekki hægt að vinna þetta í sátt og sam­lyndi. En borgar­stjórnin virðist vera þannig að það sé ekkert til sem heiti sam­lyndi. Við lögðum til dæmis til að það væri hægt að opna götuna á blíð­viðris­dögum, frá Hlemmi og niður úr, en það var ekki hlustað á það,“ segir Hall­dór.

„Síðan lögðum við til að þetta yrði gert að vist­vænni götu, þannig bílar gætu keyrt í lulli, eins og þeir reyndar gera í dag. En mestu vand­ræðin okkar í dag stafa af reið­hjólunum og raf­magns­hlaupa­hjólunum sem eru hérna eins og þetta sé villta vestrið,“ segir Hall­dór.

„Fólk er í stór­hættu vegna þessa. Við höfum talað um að það sé skrítið að hjólin séu leyfð hér, á meðan alls­staðar úti þarftu að hafa þetta tryggt ef þú ert með þetta á al­manna­færi, en hér er ekkert hugsað um það.“

Spurður að því hverju versluna­rek­endur vonist til að á­orka með upp­setningu skiltanna segir Hall­dór vitundar­vakningu þegar hafa átt sér stað.

„Það var gerð könnun nú um daginn og fólk er ekkert hrifið af þessari heildar­lokun en auð­vitað vitum við það að það er stór hópur af unga fólkinu okkar sem býr í mið­bænum og er hrifið af þessu og finnst þetta gott og þetta þykir voða­lega flott tíska,“ segir Hall­dór.

„En það er ekki verið að hugsa um fram­tíðina sem slíka. Við erum búin að vera með þennan rekstur í tólf ár og maður segir alltaf að maður þurfi að leggja metnað sinn í að þjónusta Ís­lendinga þó svo að það sé gott að hafa túr­ista,“ segir Hall­dór.

Hann segir Ís­lendinga gjarnan hafa mætt í morgun­kaffið á Vitann. Eftir lokanir á neðari hluta Lauga­vegsins hafi það breyst. „Þá færði þetta fólk sig yfir á N1 á Hring­braut og þetta fólk hafði þetta fyri vana að keyra niður Lauga­veginn í 10-15 ár, á leið til vinnu. En þessu hættum við og opnum núna í dag bara hálf níu.“

Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink