Sigurlaug Gísladóttir, verslunareigandi á Blönduósi, segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við svokallaða risa í heildsölu hér á landi. Hvetur hún fólk til að versla við einyrkja og fjölskyldufyrirtæki og nefnir hún fyrir því nokkrar ástæður.
Sigurlaug skrifar aðsenda grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni Sagan af íslenska Golíat. Segist Sigurlaug, sem rekur Húnabúðina, glíma við Golíat alla daga og tímabært sé að fjalla um hann á opinberum vettvangi.
„Er þetta eðlilegt?“
Sigurlaug bendir á að reksturinn innihaldi kaffihús sem og blóma- og gjafavöruverslun enda þurfi verslanir á landsbyggðinni stundum að hafa nokkur járn í eldinum til að standa undir rekstrinum.
„Við á landsbyggðinni viljum gjarnan geta boðið sama vöruúrval og sést í borginni og stærri stöðum en eitt dæmið sem ég fjalla um segir frá Golíat nokkrum sem kemur viljandi í veg fyrir það,“ segir hún í grein sinni og bætir við að um sé að ræða stóran risa í heildsölu sem jafnframt er eigandi nokkurra stærstu lífstílsverslana landsins. Segir hún að þessi risi neiti þessum litlu um vörur sem hann flytur inn.
„Athygli vekur að Golíat þessi neitar að staðfesta það við mig í tölvupósti að hann vilji ekki taka inn fleiri smásöluaðila, sem mér finnst eindregið benda til að þetta sé í raun ekki löglegt, eða hvað finnst ykkur, er þetta bara allt í lagi og eðlilegt?“
Fá vörurnar á allt öðru verði
Hún segir að annar Golíat sé stór framleiðandi á ákveðinni vöru og einnig stærsti heildsali landsins á því sviði. Hún segir að viðskiptavinir fyrirtækisins sitji ekki allir við sama borð.
„Sumir viðskiptavinanna eru stórir og miklir á markaðnum og fá vörurnar á allt öðru verði en við þessi litlu, sem er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Ég skil vel að magninnkaup gefi ákveðinn afslátt, það er eðlilegt, en fyrr má nú rota en dauðrota þegar útsöluverðið hjá þessum stóru viðskiptavinum Golíats er lægra en við þessi litlu getum keypt það á í heildsölu hjá honum, og það þarf enginn að segja mér að stóru viðskiptavinirnir hafi þessar vörur hjá sér án þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð,“ segir hún og spyr: „Er ég bara svona skrýtin, eða finnst ykkur þetta í lagi?“
Vinurinn fékk miklu lægri verð
Sigurlaug nefnir fleiri atriði sem sliga verslanir á landsbyggðinni, til dæmis flutningskostnaður. Nefnir hún að haustið 2018 hafi flutningskostnaður keyrt fram úr hófi.
„Fór úr því að vera 30 í 34% ofan á vöruverðið hjá mér, en þótt það væri svona hátt tókst mér samt að hafa vörurnar hjá mér ódýrari en stóru búðirnar í borginni sem fluttu inn sömu vörur í mun meira magni og var ég nú heldur betur montin af sjálfri mér,“ segir hún og heldur áfram:
„En hvað um það, þetta haust voru tilboðin sem ég fékk í flutninginn komin í um 50% ofan á vöruverðið og það auðvitað gengur ekki. Mér fannst þetta ansi skrýtið og ákvað að gera smá tilraun; fékk gamlan vin minn, sem vinnur hjá einum risanum á innflutningsmarkaði, og bað hann að fá tilboð í flutning á mínum vörum sem og hann gerði, og viti menn, haldið ykkur nú, tilboðið sem hann fékk var helmingi lægra en það verð sem ég fékk!“
Sigurlaug segist ekki oft verða kjaftstopp en hún hafi orðið það þarna. Segist hún ekki geta túlkað þetta öðruvísi en að litlu aðilarnir séu að greiða niður flutninga stóru aðilanna á markaðnum. Sigurlaug hvetur fólk til að hugsa um hvar það verslar.
„Verslaðu við einyrkjann og fjölskyldufyrirtækið. Ekki versla við fyrirtæki sem þú veist ekki hver á, ekki versla við fyrirtæki þar sem eigandi er þessi kennitala og þessi umsjónarmaður, og svo önnur kennitala og svo framvegis og svo framvegis, sem svo endar í skúffu á Tortóla eða öðrum viðlíka skattaskjólum.“