Helga Vala Helga­dóttir, þing­kona Sam­fylkingarinnar, spurði dóms­mála­ráð­herra í dag á þingi um mál albönsku konunnar sem vísað var frá landi í gær, en konan er gengin 36 vikur, þvert á ráð­leggingar lækna og ljós­mæðra á kvenna­deild. Helga Vala krafði ráðherra svara um hvort hún teldi það mannúðlega meðferð að vísa konu sem gengin er svo langt frá landi.

„Fram­kvæmdin virðist hafa verið byggð á vott­orði frá lækni sem aldrei hafði skoðað konuna en mat konuna ferða­færa á grund­velli þriggja vikna gamallar heim­sóknar konunnar til sótt­varnar­læknis. En hins og hátt­virtur dóms­mála­ráð­herra marg­í­trekar við fjöl­miðla þá tjáir hún sig ekki um ein­staka mál og þess vegna ætla ég ekki að biðja ráð­herra um að lýsa skoðun sinni á þessari að­gerð heldur með­ferð stjórn­valda al­mennt á fólki á flótta,“ sagði Helga Vala.

Hún bað síðan ráð­herra að skýra stefnu ríkis­stjórnarinnar í mál­efnum fólks á flótta. Hún sagði dóms­mála­ráð­herra áður hafa haldið því fram að hér sé rekin mann­úð­leg stefna í mál­efnum þeirra.

„En eftir fréttir gær­dagsins, og ekki síður eftir við­brögð full­trúa stjórn­valda í gær fæst það þvert á móti stað­fest að hér er rekin mann­fjand­sam­leg stefna í mál­efnum fólks í leit að vernd,“ segir Helga Vala.

Hún sagði að vegna þess að ráð­herra tjái sig ekki um ein­staka mál vilji hún biðja hana svara um hvað henni finnist al­mennt um að ís­lensk stjórn­völd vísi á brott frá landinu konum sem eru langt gengnar með börn sín, á seinni hluta með­göngu og benti á að heilsu­gæslan hafi lýst því yfir að það sé ó­ráð­legt fyrir konur að fljúga eftir 32. Viku með­göngu.

Að því loknu spurði Helga Vala hvort að, í sam­ræmi við það, ráð­herra teldi að ís­lensk stjórn­völd væru að fara eftir skýrum mark­miðum laga sem kveði á um að hér eigi að reka mann­úð­lega með­ferð á fólki í leit að vernd.

Áherslur ríkisstjórnar skýrar

Ás­laug Arna svaraði Helgu Völu og sagði á­herslur ríkis­stjórnarinnar skýrar í þessum mála­flokki og væri birt í stefnu­yfir­lýsingu hennar. Þá nefndi Ás­laug út­lendinga­lögin sem voru sam­þykkt árið 2016 og að þau hafi fengið víð­tækt sam­þykki á þingi.

„Það er alltaf ein­stak­lings­bundið mat þegar aðilar koma hér og sækja um al­þjóð­lega vernd að kerfið svari hratt og örugg­lega þeim aðilum sem sækja um vernd hvort sem þeir eiga rétt á verndinni eða ekki,“ segir Ás­laug Arna.

Hún sagði að í dag fengi fólk oft svar innan 4 til 11 daga og að það fólk sem hingað komi, sem eigi rétt á vernd, að­lagist sam­fé­laginu fljótt og þannig eigi kerfið að virka. Ás­laug sagði undan­tekningar vera til í kerfinu þegar um heil­brigðis­að­stæður væri að ræða en þá væri skýrt að það þyrfti vott­orð frá heil­brigðis­yfir­völdum um að fólki stafaði hætta af því að vera vísað úr landi og þá yrði henni frestað.

„Það hefur marg­oft verið gert í okkar kerfi, þegar það er líkam­leg eða and­leg veikindi, eða meðal annars þungun,“ segir Ás­laug Arna.

Áslaug Arna sagði á þingi í dag að hún væri mannleg eins og aðrir þingmenn.

Kom sér undan því að svara

Helga Vala svaraði henni aftur og sagði að henni þætti miður að ráð­herra hafi komið sér undan að svara þeirri spurningu sem fyrir hana var lögð um hvort það teljist sam­ræmast mann­úð­legri stefnu að vísa þungaðri konu frá landi.

„Já eða nei, hæst­virtur ráð­herra. Er það mann­úð­leg stefna að reka konu sem gengin er 36 vikur úr landi með flug­vél?“

Heilbrigðisstarfsfólk yrði að meta aðstæður

Ás­laug Arna svaraði á ný og sagði það skýrt í lögum að það væri fyrir heil­brigðis­starfs­fólk að meta það hve­nær aðili væri í hættu að fara um borð í flug­vél og hve­nær ekki.

„Ég er mann­leg líkt og aðrir þing­menn og þetta olli hjá mér ugg þegar ég sá fréttirnar en það lá fyrir skýrt til­mæli heil­brigðis­yfir­valda um að það væri ekki hætta á ferðum í þessu máli,“ sagði Ás­laug Arna.

Hún vísaði einnig til orða sitjandi for­stjóra Út­lendinga­stofnunar og sagðist fagna frum­kvæði em­bættis land­læknis sem hefur til­mælin til skoðunar og að em­bættin tvö ætli að setjast niður til að skoða til­mælin.

Hrópaði fram að hana vantaði enn svar

Stein­grímur J. Sig­fús­son sleit að því loknu um­ræðum við þessari fyrir­spurn, en heyra má í upp­töku Helgu Völu hrópa fram að hún hafi enn ekki fengið svar við fyrir­spurninni. Að því loknu tók Helga Vala aftur til máls og óskaði að­stoðar for­seta við að fá svar við fyrir­spurn sinni.

„Hún svaraði því alls ekki og það skiptir ekki máli hvað hæst­virtur fjár­mála­ráð­herra fussar hér á bak við. Spurningunni var ekki svarað,“ sagði Helga Vala

Stein­grímur svaraði Helgu Völu og sagði fyrir­spurn hennar ekki varða fundar­stjórn for­seta og benti henni á að þing­menn ráði sínum fyrir­spurnum og ráð­herrar sínum svörum.

Búast má við því að um­ræður haldi á­fram um málið á þingi síðar í dag, en sér­stök um­ræða fer fram á Al­þingi í dag um mál­efni inn­flytj­enda. Máls­hefjandi er Jón Stein­dór Valdimars­son, þing­maður Við­reisnar, en hann fjallaði einnig um málið á þingi í gær og sagði sér mis­boðið.

Hægt er að fylgjast með umræðum og sjá upptökur á heimasíðu Alþingis.