Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir að einungis einn borgarfulltrúi meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur hafi hlýtt á seinnihlutann í ræðu hennar í fyrri umræðu fjárhagsáætlunarinnar í gær. Hún greindi frá þessu á Facebook síðu sinni í gær.

„Ég talaði lengi enda hafði ég mikið að segja fyrir hönd Flokks fólksins. Um tíma á meðan ég talaði var aðeins einn borgarfulltrúi meirihlutans í salnum. Er það ekki bara eitt stórt diss?“ skrifar Kolbrún en hún talaði í eina klukkustund og tæpar tuttugu mínútu.

Sóley Tómasdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri grænna, setti athugasemd við færslu Kolbrúnar og benti á að samkvæmt fundargerð hafi Kolbrún tekið sæti á fundinum klukkan 15:40, stuttu áður en ræða hennar hófst en fundurinn hófst klukkan 12:00.

„Og því ólíklegt að þú hafir setið andaktug og hlustað á ræður samstarfsfólks þíns. Ég er ekki alveg sannfærð um sanngirni þessarar athugasemdar, en við erum kannski ekki sammála um það,“ skrifar Sóley.

Kolbrún sagðist hins vegar hafa fylgst með umræðunum frá byrjun en að meirihlutinn hafi verið mest allan tímann frammi á gangi meðan hún talaði. Þá velti Sóley upp spurningum um hvort ekki væri mögulegt að borgarfulltrúar meirihlutans hafi fylgst með annars staðar í Ráðhúsinu, en hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá forsetaherberginu og borgarráðsherberginu.

Seinni umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 og fimm ára áætlun fer fram 3. desember 2019.