Kári Stefánsson vonar að faraldurinn sé nú í rénun hér á landi en segir næstu daga ráða úrslitum. Hann hefði viljað sjá heilbrigðisyfirvöld grípa til harðari aðgerða í síðustu viku en segir gott að spurningum sé velt upp um gagnsemi og hliðaráhrif sóttvarnaraðgerða.  

Þetta sagði forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Hann segist í meginatriðum vera fylgjandi núverandi aðgerðum stjórnvalda en að hann og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi þó ekki alltaf verið sammála.

Hefði viljað loka skólum

„Til dæmis er eitt af því sem við leyfum núna er að skólarnir eru opnir og röksemdin fyrir því er sú að börn hafi minni tilhneigingu til að smitast en fullorðnir og að börn smiti síður.“

Eru þær upplýsingar til að mynda byggðar á niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

„En staðreyndin er sú að börn hafa bara 50% minni líkur á því að smitast en fullorðnir og 50% síður líkleg til að smita en engu að síður smitast þau og smita aðra. Þannig að ef þú vilt fara í þetta af fullri hörku þá er ýmislegt sem ég hefði gert öðruvísi en Þórólfur er að fara svona meðalhófs millileið eins og honum einum er lagið. Þetta er hinn ljúfasti, fínasti, flottasti maður og ég styð hann 100% í þessu en við erum svo heppin sem þjóð að ég ræð þessu ekki heldur hann,“ sagði Kári í Sprengisandi.

Fagnar umræðu um aðgerðir

Meira hefur farið fyrir gagnrýni á ráðstafanir stjórnvalda nú en í fyrri bylgjum faraldursins og hefur Kári ekki farið varhluta af því. Hann segir eðlilegt að spurningum sé velt upp um áhrif og árangur aðgerðanna.

„Ég held að það sé mjög hollt. Við verðum að velta því fyrir okkur alvarlega sem við erum að gera, við erum að minnka boragaleg réttindi út af faraldrinum og það væri nú meiri vitleysan ef það væri ekki fólk þarna úti sem spyrði spurninga um það.“

„Til dæmis er ég mjög montinn af Sigríði Andersen [þingmanni Sjálfstæðisflokksins], að hún sé sífellt að velta þessum spurningum upp þó ég sé næstum því 100%, líklega í 101% tilfella, ósammála henni en hún er að sinna skyldu sinni sem kjörinn fulltrúi.“

Bjartsýnn á að hægt verði að lifa betur með veirunni

Kári segir að engin merki séu um að smit hafi borist hingað til lands eftir að tvöföld skimun var tekin upp á landamærunum.

„Þegar við verðum búin að ná tökum á þessari bylgju, sem ég er handviss um að okkur tekst á tiltölulega stuttum tíma, þá held ég að við séum komin á þann stað að það kannski blossi upp lítil hópsmit hér og þar en að við getum haft tiltölulega opið samfélag.“

„Ég held að við hljótum að geta haft samfélag þar sem við getum komið saman, hlustað á tónlist og farið í leikhús saman, með því að viðhalda þessum aðgerðum á landamærunum.“

Þjóni hagsmunum ferðaþjónustunnar að hafa tvöfalda skimun

Hann bætir við að hann sýni því mikinn skilning að aðilar í ferðaþjónustu vilji að dregið verði úr þeim takmörkunum.

„En ég er bara skíthræddur um að ef við myndum opna þá myndi þetta lokast af sjálfu sér, vegna þess að þau lönd sem fólk kemur frá til Íslands myndu loka á okkur þar sem smitstuðullinn væri orðinn svo hár.“

Því telji hann að það þjóni hagsmunum ferðaþjónustunnar til langframa að takast núna á við faraldurinn með öflugum aðgerðum.