Breska þingið í West­min­ster er æði ó­líkt hinu ís­lenska Al­þingi og kemur lands­mönnum fyrir sjónir sem hálf­gerður sirkus. Sér­stak­lega í haust þegar upp­lausn ríkti vegna út­göngu Breta úr Evrópu­sam­bandinu. Sig­ríður Torfa­dóttir Tulinius starfar sem ráð­gjafi í þinginu fyrir Skoska þjóðar­flokkinn, SNP, flokk sem hefur það að mark­miði að Skot­land fái sjálf­stæði frá Stóra-Bret­landi. Einnig starfaði hún í kosninga­t­eymi flokksins, með leið­toganum Nicolu Stur­geon.

Besta um­ræðu­her­bergið

„Bretar elska leik­húsið og leik­hús­menningin er sterk í West­min­ster,“ segir Sig­ríður. „Í þing­salnum sjálfum komast í raun ekki nema 400 þing­menn í sæti með góðu móti en þegar allir 650 þing­mennirnir eru mættir getur stemningin orðið ansi magn­þrungin. Rýmið og hefðin gerir það að verkum að um­ræðurnar verða líf­legar og hart er tekist á. Salurinn hefur verið kallaður besta um­ræðu­her­bergi veraldar.“

Er þetta allt annað and­rúms­loft en Ís­lendingar eiga að venjast, með sín merktu sæti fyrir hvern þing­mann.

„Bresku þing­mennirnir hafa unun af því að flytja ræður og þeir eiga ríka hefð í ræðu­list,“ segir hún. „Pólitíkin hér á að hafa skemmtana­gildi og Ís­lendingar gætu lært mikið af Bretum hvað þetta varðar.“

Breska þingið á það þó sam­merkt með því ís­lenska að þegar þing­menn mæta í kaffi­stofuna hverfur heiftin sem birtist í salnum. Mál séu oft unnin þvert yfir flokks­línur.

Nefnir hún til að mynda hinn her­skáa Í­halds­mann Michael Gove. „Hann er mjög vin­gjarn­legur hérna á göngunum og heldur alltaf hurðinni opinni fyrir mig,“ segir hún og hlær. Það sama má segja um Jeremy Cor­byn, hinn þung­brýnda leið­toga Verka­manna­flokksins, sem víli það ekki fyrir sér að bjóða fólki kaffi­bolla, eða hinn kjarn­yrta Í­halds­mann Jacob Rees-Mogg. „Eitt sinn týndist ég í þing­húsinu, sem er hálf­gert völundar­hús, og þá hjálpaði Rees-Mogg mér að komast leiðar minnar. Þing­mennirnir eru al­mennt mjög kurteisir hérna.“

Al­gert stjórn­leysi

„Allan tímann sem ég hef verið hér hefur verið mikill órói,“ segir Sig­ríður og minnist sér­stak­lega dagsins eftir Brexit-þjóðar­at­kvæða­greiðsluna. „Al­ger ringul­reið ríkti þegar við mættum í vinnuna. David Ca­meron var búinn að segja af sér og við vissum ekkert hver væri við völd í landinu. Síðasta ár hefur einnig verið mjög ó­reiðu­samt og erfitt eða ó­mögu­legt að gera plön fram í tímann.“

Nefnir hún til að mynda tímann þegar Boris John­son, þá ný­kjörinn for­sætis­ráð­herra, tapaði hverri at­kvæða­greiðslunni á fætur annarri án þess að á hann væri lýst van­trausti. „Við upp­lifðum al­gert stjórn­leysi á þessum tíma. Venjan er að það liggi fyrir dag­skrá í þinginu um frum­vörp og ríkis­stjórnar­mál en hún hefur ekki verið til staðar í meira en ár og mál ekki fengið eðli­lega með­ferð,“ segir hún. „Það er samt á­huga­vert að fá að upp­lifa svona sögu­lega tíma frá fyrstu hendi.“

Það góða við þennan ó­ró­leika segir hún er að vald ein­stakra þing­manna hefur verið meira en venju­lega og hægara um vik fyrir þá að ná málum í gegn. Eftir að Í­halds­flokkurinn náði öruggum meiri­hluta í þing­kosningunum í desember mun þetta væntan­lega breytast aftur í fyrra horf. „Það er allt öðru­vísi að vera hérna núna en í haust,“ segir Sig­ríður en þegar blaða­maður náði af henni tali var þingið að koma saman aftur eftir há­tíðarnar.

Sigríður stundaði masters­nám í borgar­hönnun og fé­lags­vísindum við London School of Economics. Mynd/Si Melber

Hrunið markaði ferilinn

Sig­ríður er 33 ára, upp­alin í Hlíðunum í Reykja­vík í mikilli mennta- og menningar­fjöl­skyldu. Báðir for­eldrar hennar eru prófessorar við Há­skóla Ís­lands, faðir hennar Torfi Tulinius í mið­alda­bók­menntum og Guð­björg Vil­hjálms­dóttir móðir hennar í náms- og starfs­ráð­gjöf. Eldri bróðir hennar er Kári Tulinus skáld.

Eftir Hlíða­skólann og Mennta­skólann í Hamra­hlíð gekk Sig­ríður í Lista­há­skólann og lærði mynd­list. En þá skall hrunið á sem hreyfði við henni að beita sér í stjórn­málum með ein­hverjum hætti. „Til að byrja með fór ég að skapa list með póli­tísku í­vafi. En síðan fann ég að ég yrði að gera eitt­hvað meira. Ég var sí­leitandi að svörum við því hvernig efna­hags­kreppan gat átt sér stað og hvernig ætti að bregðast við henni svo að sagan myndi ekki endur­taka sig.“ Á Ís­landi starfaði hún meðal annars í Femín­ista­fé­lagi Ís­lands en var ekki virk í neinum stjórn­mála­flokki.

Hún fór til Bret­lands í frekara nám, í masters­nám í borgar­hönnun og fé­lags­vísindum við London School of Economics. Hugðist þá beita sér í sveitar­stjórnar­málum í kjöl­farið. En enn var hún leitandi og bætti að lokum við sig gráðum í bæði heim­speki og lög­fræði ytra. Þegar hún var að klára lög­fræðina árið 2015 fékk hún starf hjá SNP í breska þinginu.

„Rétt eins og Ís­land lenti Bret­land illa í hruninu. En mér fannst við­brögðin röng, hin enda­lausa niður­skurðar­stefna sem stunduð var af Í­halds­flokknum. Ed Milli­band, foringi Verka­manna­flokksins á þeim tíma, mót­mælti þessu ekki en SNP var fyrsti flokkurinn sem benti á að þetta væri röng að­ferða­fræði. Það dró mig að þeim,“ segir Sig­ríður.

Hryðju­verka­á­rás við þing­húsið

Dvölin í Bret­landi átti að­eins að vera eitt ár en lengdist í ára­tug. Hún býr í Lundúnum með manni sínum Steinari Erni Jóns­syni, sem starfar í jarð­hita­málum, og segir að ekkert farar­snið sé á þeim þó að Ís­land togi alltaf.

Hún hefur þó kynnst ýmsu sem Ís­lendingar eru ekki vanir, svo sem hryðju­verka­á­rás sem átti sér stað á Lundúna­brú í mars árið 2017. En þá keyrði maður bíl á hóp veg­far­enda, fjórir létust og um 50 slösuðust.

„Þinginu var strax lokað og við máttum ekki fara út fyrr en seint um kvöldið. Allir voru læstir inni á skrif­stofunum. Það var erfitt að vita af því að eitt­hvað hræði­legt væri að gerast svona skammt frá okkur. En við vissum ekki neitt meira en fólkið sem fylgdist með í sjón­varpinu heima. Vissum ekki hvort á­rásinni hafi verið beint að þing­húsinu eða ekki. Heldur ekki hvort ein­hver væri inni í þing­húsinu,“ segir hún. „Þingið brást vel við þessu og allir stóðu mjög vel saman.“

„Bretar elska leik­húsið og leik­hús­menningin er sterk í West­min­ster,“ segir Sig­ríður

Öfga­laus og vel­ferðar­sinnaður

Sig­ríður segir það vissu­lega vera sér­stakt að starfa fyrir flokk sem er á allt öðru land­svæði og lítur á þing­flokkinn sem nokkurs konar úti­bú.

„Ég fer mikið norður til Skot­lands og var þar í fjórar vikur að vinna í höfuð­stöðvum SNP í kringum þing­kosningarnar,“ segir hún. En flokkurinn býður að­eins fram í Skot­landi og sigraði í 48 af 59 kjör­dæmum. „Stjórn­mála­um­ræðan er allt öðru­vísi í Skot­landi en hérna í London og það gleymist oft að Skotar eru auð­vitað önnur þjóð með sitt eigið þing – Bret­land er sam­band fjögurra ó­líkra þjóða.“

Al­gengt er að sjálf­stæðis­bar­átta þjóða eða þjóðar­brota í Evrópu sé drifin á­fram af flokkum yst á hægri vængnum, og sé jafn­vel lituð af hatri í garð út­lendinga, á­kveðinna kyn­þátta eða al­þjóða­stofnana. SNP er hins vegar vel­ferðar­sinnaður og öfga­laus krata­flokkur sem styður á­fram­haldandi aðild að Evrópu­sam­bandinu og hvorki UKIP né Brexit-flokkurinn hafa náð neinu fylgi í Skot­landi.

Að undir­lagi SNP kusu Skotar um sjálf­stæði frá Stóra-Bret­landi haustið 2014, en það var fellt með 55 prósentum gegn 45. Þrátt fyrir þetta hefur fylgið við SNP farið upp á við og Sig­ríður segir að krafan sé á­fram jafn sterk. Árið sem Sig­ríður kom inn, 2015, vann flokkurinn risa­sigur í þing­kosningunum, 56 þing­sæti.

„Skoðana­kannanir um sjálf­stæði tala sínu máli og SNP hefur nú unnið þing­kosningar í skoskum kjör­dæmum þriðja skiptið í röð,“ segir hún. Jafn­framt að nú sé Stur­geon að reyna að koma breytingum í gegn sem myndu færa á­kvörðun um aðra þjóðar­at­kvæða­greiðslu frá West­min­ster til Hol­yrood í Edin­borg.

Sig­ríður segir að út­göngu­málin skipti höfuð­máli í þessu sam­hengi. Hvert einasta kjör­dæmi Skot­lands kaus með á­fram­haldandi veru í Evrópu­sam­bandinu árið 2016 og eftir hana hafi Skotum fundist þeir sviknir. Lítið sam­ráð eða sam­tal hafi átt sér stað við skoska þingið um út­gönguna eða út­færsluna á henni. Rödd Skota hafi ekki fengið að heyrast heldur sé verið að draga þá nauðuga úr Evrópu­sam­bandinu.

Þrátt fyrir að Stur­geon hafi stað­fast­lega barist fyrir annarri þjóðar­at­kvæða­greiðslu um sjálf­stæði á Sig­ríður ekki von á sams konar hörku og sést hefur annars staðar. „Nicola hefur tekið það fram að hún vilji ekki aðra Kata­lóníu. Hlutirnir verði gerðir með réttum hætti,“ segir hún.

Sigríður segir góða tilfinningu fylgja því að ná einhverju í gegn. Mynd/Si Melber

Nýju krakkarnir í hverfinu

Að­spurð um hvernig þing­mönnum sem vilja kljúfa ríkið sé tekið af öðrum flokkum segir hún af­stöðuna hafa mildast með árunum. „Árið 2015 voru þing­menn SNP nýju krakkarnir í hverfinu og aðrir skildu ekki hvaðan þau voru að koma. Það ríkti tor­tryggni í garð SNP. Þó að aðrir séu ó­sam­mála SNP í sjálf­stæðis­málunum þá ríkir meira traust,“ segir hún.

„Í kringum sjálf­stæðis­bar­áttuna urðu mjög margir Skotar virkir í stjórn­málum sem höfðu ekki verið það áður og margt af því fólki hefur á­kveðið að starfa fyrir SNP. Þing­mennirnir eiga margir langa starfs­reynslu á öðrum sviðum, hæfi­leika­ríkt og vel menntað fólk sem kom ó­hefð­bundna leið inn í stjórn­málin.“

Stur­geon sjálf hefur einnig hrifið marga, en fólk átti ekki endi­lega von á því þegar hún tók við leið­toga­hlut­verkinu af Alex Salmond árið 2014. „Nicola er alveg eins og hún kemur fram í fjöl­miðlum, hún er mjög skörp en líka ein­læg,“ segir Sig­ríður. „Ég myndi lýsa henni sem skapandi pólitíkusi sem er fram­úr­skarandi í öllum ó­líkum eigin­leikum starfsins. Hún nær til fleira fólks, annað en Alex sem gat stuðað suma.“

Álit Skota á for­sætis­ráð­herranum, Boris John­son, hefur ekki bein­línis verið hátt síðan hann tók við í sumar, einkum vegna harðrar út­göngu­stefnu sinnar. Til að mynda sagði Ruth David­son, hinn vin­sæli leið­togi skoskra Í­halds­manna, af sér vegna hans. „Í Skot­landi er hann al­mennt talinn dæmi­gerður enskur Eton-piltur úr efri­stétt, sem hefur ekki skilning á mál­efnum Skota,“ segir Sig­ríður. „David­son hafði reynt að breyta í­mynd flokksins en eftir að John­son komst til valda gerði það henni erfitt fyrir.“

Vinnu­dagarnir langir

Þegar Sig­ríður er ekki í kosninga­ham starfar hún sem ráð­gjafi í dóms- og innan­ríkis­málum fyrir þing­manninn Joanna Cher­ry sem leiðir þann mála­flokk. Cher­ry er best þekkt hér á Ís­landi fyrir kæru á hendur Boris John­son vegna á­kvörðunar hans um að rjúfa þingið í haust, sem leiddi til þess að á­kvörðunin var dæmd ó­lög­mæt í hæsta­rétti Bret­lands.

„Þegar koma frum­vörp inn í þingið í þessum mála­flokki þá leiði ég þá vinnu, sem einnig ræður og spurningar fyrir þing­menn og að­stoða þá á annan hátt,“ segir Sig­ríður um sín dag­legu störf. „Oft er pressan og hraðinn mikill í þinginu og ég hef lítinn tíma til að vinna mál eða spurningar. Á­lagið er mikið og vinnu­dagarnir langir.“

Á meðal stærstu þing­sigranna sem Sig­ríður man eftir á sinni vakt var inn­leiðing svo­kallaðrar Magnit­sky lög­gjafar. En sam­kvæmt henni geta ríki sett þvinganir á aðila fyrir mann­réttinda­brot sem ekki er refsað fyrir í sínum heima­löndum.

Þrátt fyrir að sinna að mestu leyti dóms- og innan­ríkis­málum segist hún hafa brennandi á­huga á mörgu öðru. Til að mynda geð­heil­brigðis­málum. Hefur hún meðal annars unnið að því að bæta rétt barna sem eiga for­eldra með geð­rænan vanda. Þá hefur hún einnig unnið tals­vert að málum er varða út­lendinga, svo sem mál­efnum borgara Evrópu­sam­bandsins og mál­efnum hælis­leit­enda, og leiðum til að koma í veg fyrir hörmungar á borð við þjóðar­morð í öðrum ríkjum.

„Það besta við stjórn­málin er að þau gefa manni færi á að vinna í alls konar ó­líkum málum. Í stjórnar­and­stöðu gerast hlutirnir hægt en við reynum að ýta þeim í rétta átt. Þegar við náum ein­hverju í gegn er það virki­lega góð til­finning,“ segir Sig­ríður.