Hampplantan hefur verið notuð í ýmsum tilgangi af manninum í gegnum söguna. Hampplantan er fyrsta plantan sem vitað er til að hafa verið ræktuð sérstaklega af mönnum. Plantan er einnig sögð fyrsta plantan sem var notuð til að breyta í nýtanlegar trefjar fyrir um 10.000 árum.

Plantan var notuð til að framleiða ýmsar atvinnu- og iðnaðarvörur. Trefjar voru nýttar í reipi, ýmsar vefnaðarvörur, fatnað, pappír, lífræn efni og svo mætti lengi telja. Þá hefur plantan einnig verið notuð til að búa til einangrun í hús og sem lífeldsneyti.

Hampsegl og -reipi fluttu evrópskir landnemar til Ameríku í hundruð ára eða fram að tilkomu gufuskipanna snemma á nítjándu öld.

Hampur var notaður sem skiptimynt í kringum 1630 og fram undir 1800 og einnig var í boði að borga skatta með kannabishampi í yfir 200 ár.

Bílaframleiðendur á borð við Henry Ford framleiddu bifreiðar úr hampplasti í kringum 1941. Fyrsta bílamódel Ford, Model T, var knúið áfram á hampeldsneyti. Bíllinn sjálfur var búinn til að mestu úr hampplasti sem er tíu sinnum sterkara en stál.

Á stríðsárunum var hampur notaður í fatnað, einkennisbúninga hermanna, skó, skipasmíði, fallhlífar, ferðatöskur og fleira.

Þegar basttrefjum í plöntunni er blandað saman við aðrar trefjar líkt og hör, bómull eða silki, verða til efni fyrir fatnað og ýmiss konar húsbúnað. Fundist hafa ýmsar matreiðsluuppskriftir úr gömlum matreiðslubókum frá Ítalíu, Svíþjóð og Þýskalandi sem benda til þess að plantan hafi verið mikið notuð í fæðu. Einnig hefur plantan verið notuð í lækningaskyni og sem fæðubótarefni.

Það eru því margar vísbendingar víða í heiminum sem benda til þess að hampplantan hafi verið notuð í ýmsum daglegum tilgangi hér á árum áður.

Í dag er hún hins vegar næstum ekkert nýtt af manninum. En hvers vegna?

Janne Heimonen, upplýsingafulltrúi Kannaway, fyrirtækis sem sérhæfir sig í vörum úr hampplöntunni, var staddur á landinu á dögunum til að ræða við alþingismenn um kosti plöntunnar. Fyrir um ári komst hann sjálfur í kynni við hampinn í fyrsta sinn en þá var lítil sem engin umfjöllun um hana í fjölmiðlum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

„Fyrir um 18 mánuðum vissi ég ekkert um hamp. Mér fannst þetta virkilega áhugaverð afurð og ég féll fyrir plöntunni og eiginleikum hennar. Plantan hefur í raun verið tekin frá okkur, en við notuðum hana mikið hér áður fyrr,“ segir Janne.

„Hampur er elsta planta sem maðurinn hefur ræktað og notað í gegnum tíðina. Hún hvarf úr iðnaðarnotkun fyrir um 90 árum, þegar meðal annars plast kom í staðinn og önnur efni. Hampplantan hefur til að mynda verið notuð mikið til að endurnýja og hreinsa upp jarðveg í ýmsum löndum eftir stríð og sérstaklega eftir notkun efnavopna. Plantan var eitt sinn hluti af fæðukeðju okkar en er það ekki lengur. Við erum að safna alls konar sögulegum upplýsingum um plöntuna til að sýna fram á að hún á rétt á að verða hluti af fæðukeðjunni á ný.“

Hann segir það mikið tækifæri fyrir landbúnað að rækta hampplöntuna í því skyni að nota hana í atvinnu- og iðnaðarvörur, sem fæðubótarefni og í ýmislegt annað sem tengist daglegu lífi.

„Mörg lönd eru farin að líta hýru auga til hampplöntunnar. Plantan er í raun arfi, hún er afskaplega sterk, vex hratt og hægt að nýta á ótrúlega fjölbreyttan hátt. Kanadísk fyrirtæki eru að fjárfesta í mörgu sem tengist plöntunni og fleiri lönd á borð við Rússland, Tyrkland og Úkraínu,“ segir Janne.

„Það var ekki dýrt að nýta plöntuna í þá daga en það er kannski dýrt að byrja á því núna enda ekki til vélar lengur sem vinna úr plöntunni líkt og bómull og annað. En til lengri tíma er það hagstætt. Þetta er umhverfisvæn lausn.“