Óttar Kolbeinsson Proppé
ottar@frettabladid.is
Föstudagur 14. ágúst 2020
20.02 GMT

Óvissa ríkir enn um hvort þær vísbendingar sem þar til gerðir GPS-mælar gáfu í gærkvöldi um að jökulhlaup væri að hefjast í Grímsvötnum séu marktækar eða hvort um skekkju hafi verið að ræða í mælunum. Þróun mála í dag bendir raunar frekar til þess að mæliskekkja hafi átt sér stað en næstu klukkutímar munu gefa betri mynd af stöðunni. Almannavarnir taka mælunum þrátt fyrir þetta að sjálfsögðu alvarlega og segja að þó að jökulhlaup sé mögulega ekki að hefjast akkúrat núna sé ljóst að það verði á næstu vikum í Grímsvötnum. Líklegt þykir að jökulhlaupinu fylgi svo eldgos.

„Við höfum vitað það frá því í vor að það kemur að öllum líkindum jökul­hlaup í Gríms­vötnum fyrr eða síðar. Eins og vatns­söfnunin hefur verið þá eru ekki miklar líkur á að vötnin geti safnað mikið meira vatni. Vatns­staðan nú er svipuð og árin 2004 og 2010 þegar það voru jökul­hlaup,“ segir Björn Odds­son, jarð­eðlis­fræðingur og fag­stjóri hjá al­manna­vörnum.

Hafa nægan tíma

Í vor setti Veður­stofan upp nýja GPS-mæla, einn upp á Gríms­fjall en annan niðri í Gríms­vötn. Þeir senda svo frá sér hnit og sést mis­munur hæðar þeirra á línu­riti, sem er að­gengi­legt á vef Veður­stofunnar. Lína þessi hefur verið með þokka­lega stöðugt ris í allt sumar sem gefur það til kynna að vatn sé að safnast saman undir ís­hellunni. Í gær­kvöldi gerðist það svo að línan fór að beygja af og var orðin nánast lá­rétt fram undir morgun. Það gefur vís­bendingar um að vatnið sé byrjað að renna undan ís­hellunni og í átt að jökul­jaðrinum.

Grímsvötn gusu síðast árið 2011. Þar áður árið 2004 og 1998.
Fréttablaðið/Vilhelm

„Við höfum aldrei verið með svona ná­kvæma mæla á svæðinu áður þannig að þetta er í fyrsta skipti sem við sjáum þetta með svona löngum fyrir­vara,“ segir Björn. Þess vegna var talið ó­hætt að bíða með að grípa til að­gerða í gær og sjá hver þróunin yrði yfir nóttina. Vísinda­ráð al­manna­varna fundaði svo í morgun og mun koma aftur saman í fyrra­málið. „Þetta gerðist frekar hægt í gær og þess vegna gátum við látið nóttina líða. Megins­purningin núna er hvort jökul­hlaup sé að hefjast eða ekki.“

Að­spurður segist Björn ekki geta giskað á það sjálfur hvort um skekkju í mæli­tækjunum hafi verið að ræða. Breytingarnar í dag hafi verið litlar, og því of snemmt að segja til um hvort jökul­hlaup sé að hefjast á svæðinu. Ef mælarnir haldast á­fram stöðugir verður farið með þyrlu á svæðið á sunnu­daginn til að kanna þá frekar.

Björn segir aldrei alveg hættu­laust að fara ferðir upp á svæðið en ó­lík­legt sé að gos myndi hefjast akkúrat þegar verið væri að kanna mælana. Yfir­leitt sé nokkuð góður fyrir­vari á jökul­hlaupum og gosum í Gríms­vötnum.
Fréttablaðið/Anton Brink

„En við tökum þessu auð­vitað al­var­lega núna, því eins og ég segi þá er bara tíma­spurs­mál hve­nær jökul­hlaup hefst í Gríms­vötnum,“ segir hann. „Ef þetta er vatn að leka þá eru það al­gjör­lega fyrstu merkin um jökul­hlaup. Í flestum til­vikum vex lekinn bara með tímanum en þetta er þá greini­lega ferli sem gerist mjög hægt og breytingarnar eru litlar.“

Hann segir að hin „venju­legu“ merki um jökul­hlaup sem sést hafa síðustu ára­tugi hafi ekki enn komið fram. „Þannig að við höfum nógan tíma til að bregðast við annars vegar jökul­hlaupi og hins vegar hugsan­legum af­leiðingum þess – sem gætu verið eld­gos.“

Er líklegt að gjósi?

Þó að næsta víst teljist að jökul­hlaup verði á svæðinu getur enginn full­yrt um að því fylgi eld­gos. Björn segir þó að það megi teljast lík­legt og að það hafi gerst áður á svæðinu, síðast árið 2004. „Það fer saman hár kviku­þrýstingur og jökul­hlaup núna. Við getum sagt að kviku­geymirinn undir Gríms­fjalli sé búinn að safna jafn­mikilli eða meiri kviku núna og þegar gaus síðast. Þannig það ætti ekki að koma neinum á ó­vart ef að eld­gos hefst.“

Þannig þið eruð að búa ykkur undir gos?

„Já, alveg klár­lega og höfum verið að því síðan í vor. Gefum okkur það að þessi at­burður verði „bara“ jökul­hlaup, þá er sá ein­staki at­burður mjög við­ráðan­legur af því að mann­virkin niður við Þjóð­veg þola þetta vatns­magn sem kæmi úr Gríms­vötnum,“ segir Björn og telur þannig lík­legast að vatnið myndi renna í Gígju­kvísl. „Við­brögð og undir­búningur fyrir þann at­burð eru svona þokka­lega kunnug­leg og kalla ekki á mikinn við­búnað.“

Verða að staðsetja gosið sem fyrst

Eld­gos í Gríms­vötnum kallar þó á mun meiri við­búnað af hálfu al­manna­varna. Fyrsta verk­efni verður þá að greina hvort eld­gosið sé fyrir innan Gríms­vatna­öskjuna eða fyrir utan hana. Síðustu gos, árin 2011, 2004 og 1998 voru öll innan öskjunnar og segir Björn það þýða að það vatn sem myndi bráðna í gosinu safnist þá fyrir í öskjunni og leiti sömu leið og jökul­hlaupið. Því gæti þó fylgt gos­mökkur með ösku­falli. Árið 2004 var ösku­fall til norðurs en árið 2011 féll tals­verð aska í Suður­sveit og suð­vestan Vatna­jökuls.

Ljóst er að tjón af öskufalli getur orðið gríðarlegt. Lamb þetta kafnaði í öskufalli sem varð í gosinu 2011.
Fréttablaðið/Valli

„En ef það gýs fyrir utan öskjuna, þá er í raun hlaup­leið bræðslu­vatnsins ó­þekkt því þá er enginn geymir sem tekur við vatninu“ segir hann. Hann segir það því lykil­at­riði fyrir al­manna­varnir að vita hvort gosið verði fyrir innan eða utan öskjuna. „Ef það myndi hefjast skjálfta­hrina núna og líkurnar aukast á að gos myndi hefjast þá notum við flug­vél gæslunnar, TF-SIF, sem er búin rat­sjár­búnaði, til þess að stað­setja gos­staðinn eins fljótt og hægt er. Því það hefur í rauninni mest á­hrif á okkar við­búnað hvaðan gosið kemur út.“

Björn segir þá tvær hættur fylgja Gríms­vatna­gosum: jökul­hlaup og ösku­fall. Hann segir þó þann kost helstan við eld­stöðina að hún er eins fjarri manna­bú­stöðum og hugsast getur; í kringum hana er aðeins jökul­ís í um 50 kíló­metra radíus. „Það er því ó­lík­legt að við þyrftum að rýma ein­hver svæði. Við myndum alla­vega hafa smá tíma til að gefa út við­varanir á þeim svæðum þar sem við teldum að gæti komið annað hvort jökul­hlaup eða ösku­fall,“ segir hann.

Að­spurður hvort Co­vid-19 setji strik í reikninginn við undir­búning við­bragðs­á­ætlana segir hann far­aldurinn ekki hafa teljandi á­hrif. Verst sé að við­bragðs­aðilar geti ekki hist á eigin­legum fundum heldur verði þeir að styðjast við fjar­funda­búnað. „Síðan þurfum við bara að hafa það í huga, eins og í ösku­falli ef við þurfum að fara og hjálpa fólki að moka ösku af húsum, að halda þessari tveggja metra reglu eins og hægt er. En í eðli sínu setur veiran ekki strik í reikninginn, alla­vega ekki þannig að verk­efnið eða við­búnaðurinn breytist um­tals­vert.“

Óvíst er hvort askan myndi leita norður eða suður ef gos verður í Grímsvötnum á næstu dögum eða vikum.
Fréttablaðið/Valli
Athugasemdir