Chris Wallace, frétta­maður sjón­varp­stöðvarinnar Fox News, viður­kennir að hann hafi ekki búist við því að kvöldið yrði eins og það varð í gær­kvöldi þegar hann gerði til­raun til að stýra kapp­ræðum á milli Donald Trump og Joe Biden.

Frétta­maðurinn opnar sig í sínu fyrsta við­tali eftir gær­kvöldið í sam­tali við New York Times. Hefur hann af mörgum verið harð­lega gagn­rýndur fyrir það hvernig tókst til að stýra kapp­ræðunum, þar sem Donald Trump greip í­trekað fram í fyrir mót­herjanum.

„Ég gerði mér aldrei í hugar­lund að þetta myndi fara eins úr­skeiðis og það gerði,“ segir frétta­maðurinn. Hann viður­kennir að hann hafi verið of seinn að átta sig á því að for­setinn ætlaði sér ekki að hlýta fyrir­fram­settum reglum kapp­ræðanna.

„Ég hef lesið eitt­hvað af gagn­rýninni. Ég veit að fólk hugsar, guð, ég brást ekki nógu fljótt við,“ segir hann. „Ég býst við að ég hafi ekki áttað mig á því - og það er engin leið fyrir mann að gera það, að þetta yrði strategían hjá for­setanum, ekki bara í byrjuninni heldur allar kapp­ræðurnar.

Að­spurður út í það hvað hann hugsaði á meðan kapp­ræðurnar gengu yfir á sviðinu, segir Wallace: „Ég er fag­maður. Ég hef aldrei gengið í gegnum neitt eins og þetta.“

Hann segist fyrst hafa hrósað happi yfir því að for­setinn hefði á­varpað Biden með beinum hætti. „Mér fannst það frá­bært, þetta eru kapp­ræður!“ Eftir því sem á hafi liðið, hafi farið að renna á Mike tvær grímur.

„Ef ég reyndi ekki að ná stjórn að nýju á kapp­ræðunum - sem ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tímann náð - þá var þetta bara að fara al­gjör­lega af teinunum,“ segir hann. Hann segir hlut­verk þeirra sem stýri kapp­ræðum líkt og þessum flókið.

„Maður er tregur - verandi ein­hver sem hefur sagt frá byrjun að ég vilji vera eins ó­sýni­legur og mögu­legt er og gefa þeim færi á að tala - til þess að stíga upp þar til maður er farinn að skipta sér af meira og meira,“ segir Wallace.

Hann er ekki hrifinn af hug­myndum um að stjórnanda geti gefist kostur á að slökkva á míkra­fón annars fram­bjóðanda. Þær hug­myndir fóru með himin­skautum á sam­fé­lags­miðlum eftir kapp­ræðurnar í gær­kvöldi.

„Út frá praktísku sjónar­miði, jafn­vel þó að slökkt hefði verið á míkra­fóni for­setans, hefði hann samt getað haldið á­fram að trufla og það hefði getað heyrst í míkra­fóni Biden og samt sem áður truflað það sem fram fór á sviðinu.“

Ste­ve Scully, frétta­maður C-SPAN mun stýra næstu kapp­ræðum sem fram fara í Flórída. Kristen Wel­ker, frétta­kona NBC News mun stýra þeim síðustu.

Wallace hefur ráð til þeirra: „Ef annar hvor mannanna tekur upp á þessu, að þá vona ég að þið verðið fljótari að átta ykkur á því sem er að gerast heldur en ég. Ég fékk ekki þá við­vörun.“

Hann segist þrátt fyrir það ekki vera von­svikinn með eigin frammi­stöðu. „Ég er bara von­svikinn með út­komuna. Fyrir mig, en það sem er miklu mikil­vægara, að þá er ég von­svikinn fyrir landið, vegna þess að þetta hefði getað orðið miklu nyt­sam­legra kvöld heldur en þetta varð.“